Juventus 4-0 Lecce | Meistararnir kláruðu Lecce auðveldlega

Ísak Hallmundarson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. vísir/getty

Juventus fékk Lecce í heimsókn í ítölsku Seria-A deildinni í kvöld. Lokatölur urðu 4-0 og er Juventus komið í góða stöðu á toppi deildarinnar.

Það dró fyrst til tíðinda á 32. mínútu þegar Fabio Lucioni, leikmaður Lecce, fékk að líta rauða spjaldið. Staðan í hálfleik var 0-0.

Manni fleiri gerðu Juventus út um leikinn í síðari hálfleik. Paulo Dybala kom heimamönnum á bragðið á 53. mínútu. Cristiano Ronaldo tvöfaldaði forskotið á 62. mínútu úr vítaspyrnu. Argentínumaðurinn Gonzalo Higuain skoraði þriðja mark Juve á 83. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar var Matthijs de Ligt búinn að innsigla 4-0 sigur Ítalíumeistaranna.

Juventus er sem áður á toppnum með 69 stig, sjö stigum á undan Lazio í 2. sæti sem eiga leik til góða. Lecce eru í 18. sæti, fallsæti, með 25 stig.

Þá fór einn leikur fram í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Sevilla og Valladolid gerðu með sér 1-1 jafntefli. 

Gestirnir í Valladolid komust yfir á 25. mínútu með marki frá Kiko. Heimamenn fengu síðan víti á 55. mínútu en Munir El Haddadi brást bogalistin. Þeir fengu síðan annað víti á 83. mínútu og í þetta skiptið fór Lucas Ocampos á punktinn og skoraði. Lokatölur eins og áður segir 1-1. 

Sevilla er í 4. sæti með 54 stig en Valladolid siglir lygnan sjó í því 14. með 35 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira