Fótbolti

Pepsi Max liðin í basli með Lengjudeildarliðin | Sjáðu öll mörkin úr Mjólkurbikarnum í gær

Ísak Hallmundarson skrifar
Kristinn Steindórsson var hetja Breiðabliks í gærkvöld.
Kristinn Steindórsson var hetja Breiðabliks í gærkvöld. VÍSIR/VILHELM

Breiðablik og Víkingur Reykjavík komust áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í gær. 

Breiðablik lenti í smá basli með Lengjudeildarlið Keflavíkur á Kópavogsvelli. Staðan var 1-0 fyrir Blikum í hálfleik eftir að Stefán Ingi Sigurðarson kom þeim yfir. Keflvíkingar náðu að snúa taflinu við og komast í 2-1 og voru yfir þegar um 10 mínútur voru eftir. 

Kristinn Steindórsson var maðurinn sem tryggði Blikum endurkomusigur en hann skoraði tvö mörk, fyrst á 81. mínútu og síðan á 86. mínútu. Góður sigur hjá Breiðablik.

Það var sannkallaður Víkingaslagur í Ólafsvík þegar Víkingur Ólafsvík tók á móti Víkingi Reykjavík. Ólsarar komust yfir rétt fyrir hálfleik og var staðan 1-0 fyrir Ólafsvík þar til í uppbótartíma. Helgi Guðjónsson jafnaði þá metin fyrir Reykvíkinga og að framlengingu lokinni var komið að vítakeppni. 

Leikar enduðu þannig að Víkingur R. tryggði sér 5-4 sigur í vítakeppni og eru þeir komnir í 16-liða úrslit eftir hetjulega baráttu Ólsara. 

Mörkin ásamt viðtölum má sjá í yfirferð Svövu Kristínar Grétarsdóttur hér fyrir neðan.

Klippa: Mjólkurbikar karla - Sportpakkinn á Vísi

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×