Fótbolti

Solskjær sárnar að sjá Liverpool vinna titilinn

Ísak Hallmundarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær finnst auðvitað ekki gaman að sjá erkifjendurna vinna titilinn.
Ole Gunnar Solskjær finnst auðvitað ekki gaman að sjá erkifjendurna vinna titilinn. getty/Matthew Peters

Liverpool varð Englandsmeistari í gær í fyrsta sinn í 30 ár. Það er svo langt síðan liðið vann þann titil síðast að hann hét ekki einu sinni ,,Úrvalsdeildin“ þá. 

Eftir þessa eyðimerkurgöngu Liverpool er það örugglega skemmtileg saga fyrir hlutlausa, þá sem ekki fylgjast með íþróttum, aðdáendur Liverpool og jafnvel einhverja stuðningsmenn annarra liða í deildinni. 

Það er þó ákveðinn hópur fólks sem er örugglega ekkert sérstaklega skemmt núna, stuðningsfólk Manchester United. Manchester United og Liverpool eru einhverjir mestu erkifjendur í fótbolta á Englandi. United hafa unnið enska meistaratitilinn 20 sinnum en Liverpool vann sinn nítjánda í gær. 

Ole Gunnar Solskjær segir það aldrei gaman að sjá önnur lið vinna titilinn:

,,Í fyrsta lagi eiga öll lið sem vinna titilinn það fyllilega skilið og eiga skilið hrós fyrir. Þetta er erfið deild til að vinna. Vel gert hjá Jurgen og leikmönnum hans,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag.

,,Í hvert skipti sem þú sérð önnur lið lyfta bikarnum er það sárt. Ég held að það sé tilfinning allra innan Manchester United, leikmanna og stuðningsmanna. Við viljum komast aftur á sigurbraut og það er markmiðið okkar.“

Solskjær sagði einnig að markmiðið á þessu tímabili hjá United væri að ná 3. sæti, efsta sætið sem enn er raunhæfur möguleiki að liðið nái. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×