Innlent

Félagsmálaráðherra verði kallaður fyrir velferðarnefnd vegna aðbúnaðar erlends verkafólks

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Halldóra gengur út frá því að ráðherra verði kallaður fyrir nefndina eftir helgi. Halldóra segir ríkisstjórnina hafa dregið lappirnar í að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi.
Halldóra gengur út frá því að ráðherra verði kallaður fyrir nefndina eftir helgi. Halldóra segir ríkisstjórnina hafa dregið lappirnar í að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, sendi í dag Helgu Völu Helgadóttur, formanni Velferðarnefndar, beiðni um að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra yrði kallaður fyrir nefndina til að fara yfir stöðu þeirra aðgerða sem áttu að tryggja aðbúnað verkafólks sem dvelur í húsnæði á vegum atvinnurekenda.

Tilefni þessa er bruninn sem varð að Bræðraborgarstíg í gær en þrír létust í eldsvoðanum. Fyrirtækið sem á húsnæðið er HD Verk ehf. Það kom nýverið til sögu hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins varðandi ólöglegt íbúðarhúsnæði og útlendinga sem taldir voru starfa hér á landi án atvinnuleyfis.

Alls eru 73 einstaklingar skráðir með lögheimili í húsinu. Langflestir eru með erlent vegabréf en með íslenska kennitölu.

Halldóra segir að Helga Vala hefði brugðist skjótt og vel við beiðninni. Þær séu einnig að íhuga hvort ekki sé rétt að ræða einnig við dómsmálaráðherra um mansalsáætlun stjórnvalda. Halldóra gengur út frá því að ráðherra verði kallaður fyrir nefndina eftir helgi. Halldóra segir ríkisstjórnina hafa dregið lappirnar í mörgum málum er varða fyrirheit Lífskjarasamninga, meðal annars að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi.

„Þetta er algjörlega ömurlegt og þetta er svo sorglegt því þetta virðist vera bara einhver venja að við sættum okkur við það að allar eftirlitsstofnanir virðast bara liggja í lamasessi. Ég sé þetta gerast trekk í trekk. Við setjum hérna lög og svo þegar kemur að því að tryggja almennilegt eftirlit með lögum og reglugerðum þá klikkar það einhvern veginn alltaf og svo eru bara hagsmunir fyrirtækja svo ofboðslega oft teknir fram yfir hagsmuni borgaranna.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×