Innlent

ASÍ vill rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans

Samúel Karl Ólason skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Vísir/Vilhelm

Alþýðusamband Íslands kallar eftiri ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans á Bræðraborgarstíg. Þrír eru látnir og tveir á gjörgæslu eftir brunann í gær. Fregnir hafa borist af því að 73 einstaklingar séu með skráð lögheimili í húsnæðinu og þar af eru flestir erlent fólk. Í yflrýsingu frá ASÍ segir að leiða megi líkum að því að um sé að ræða erlent verkafólk sem atvinnurekandi hafi útvegað húsnæði.

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að verkalýðshreyfingin hafi lengi kallað eftir samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, sporna gegn mansali og koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

Það hafi ekki gengið eftir og enn hafi ekki verið staðið við fyrirheit Lífskjarasamninganna þar að lútandi.

„Sérstaklega hefur verkalýðshreyfingin farið fram með kröfur til að tryggja aðbúnað verkafólks sem dvelur í húsnæði á vegum atvinnurekanda og að atvinnurekendur séu kallaðir til ábyrgðar ef húsnæði er óviðunandi. Vitað er um fleiri tilfelli þar sem grunur leikur á að fjöldi fólks hafist við í óviðunandi húsnæði,“ segir í yfirlýsingunni.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir rannsaka eigi málið af fullum þunga.

„Hugur okkar er nú fyrst og fremst hjá því fólki sem var í húsinu þegar eldurinn braust út og aðstandendum þess. Við köllum eftir því að málið sé rannsakað af fullum þunga. Enn er óljóst á hvers vegum fólkið dvaldi í húsinu og hvers vegna svo margt fólk var þar með skráð lögheimili. Við vitum að ítrekað hefur verið kallað eftir að þetta húsnæði – og annað sambærilegt – væri tekið til skoðunar vegna ástands þess. Bruninn á Bræðraborgarstíg kallar á ítarlega og fumlausa rannsókn og það er krafa ASÍ að þar sé hverjum einasta steini velt við. Svona má aldrei gerast aftur.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×