Enski boltinn

Nóg að gera á skrifstofunni hjá Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
David Luiz fær að líta rauða spjaldið í leiknum gegn City.
David Luiz fær að líta rauða spjaldið í leiknum gegn City. vísir/getty

Það hefur greinilega verið nóg að gera á skrifstofunni hjá Arsenal í gær því í dag var tilkynnt að fjórir leikmenn hefðu skrifað undir samning við félagið.

David Luiz hefur verið mikið í umræðunni eftir hörmulega frammistöðu sína gegn Manchester City í síðustu viku þar sem hann gaf eitt mark, fékk dæmda á sig vítaspyrnu og rautt spjald.

Hann hefur nú framlengt samning sinn við Lundúnarliðið um eitt ár en hann kom til félagsins á síðasta ári frá Chelsea.

Varnarmennirnir Cedric Soares og Pablo Mari hafa svo skrifað undir fjögurra ára samninga við félagið en báðir komu þeir fyrr á þessu ári. Cedric hefur hins vegar verið mikið meiddur og Pablo fór af velli í tapinu gegn City vegna meiðsla.

Fjórði og síðasti leikmaðurinn sem skrifaði undir samning við Arsenal var Dani Ceballos en hann skrifaði undir áframhaldandi lánssamning út leiktíðina. Hann er á láni hjá félaginu frá Real Madrid.

Arsenal hefur byrjað skelfilega eftir kórónuveiruna. Liðið sá ekki til sólar gegn Man. City og tapaði 3-0 og um helgina töpuðu þeir svo 2-1 fyrir fallbaráttuliði Brighton á útivelli. Liðið mætir Southampton annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×