Innlent

Greiðir skimunar­gjald fyrir við­skipta­vini

Sylvía Hall og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures fann fyrir því að viðskiptavinum þótti gjaldið fráhrindandi og tók málin því í eigin hendur.
Starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures fann fyrir því að viðskiptavinum þótti gjaldið fráhrindandi og tók málin því í eigin hendur. Vísir/Vilhelm

Ferðaþjónustufyrirtæki ætlar að borga skimun fyrir viðskiptavini sína við komuna til landsins, en þeir hafa sett skimunargjaldið fyrir sig. Forstjórinn hvetur önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama, það sé hagur allra að gera Ísland að eftirsóknarverðari áfangastað.

Frá og með næstu mánaðamótum mun fólk þurfa að greiða 15 þúsund krónur fyrir kórónuveiruskimun á landamærunum við komuna til Íslands. 

Starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures fann fyrir því að viðskiptavinum þótti gjaldið fráhrindandi og tók málin því í eigin hendur. Fyrirtækið hyggst greiða gjaldið fyrir viðskiptavini sína, í formi afsláttar á pakkaferðum.

„Það er ljóst að það er heilmikil óvissa hjá ferðafólki um allan heim. Vírusinn er náttúrulega óvissa út af fyrir sig og það þarf að reyna að hafa eins litla óvissu þegar fólk er að bóka og hægt er,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures. 

„Þetta er nú bara til þess gert að annars vegar koma til móts við þann kostnað sem viðskiptavinurinn lendir í og einnig til að minnka óvissuna.“

Fari hins vegar svo að viðskiptavinur þurfi að fara í sóttkví við komuna til landsins fær hann inneignarnótu hjá fyrirtækinu sem hann getur nýtt síðar. „Þetta er raunverulega bara gert til þess að auðvelda fólki ákvarðanatökuna að koma til Íslands,“ segir Styrmir.

Hagur allra að laða að fleri ferðamenn

Fyrirtækið hyggst greiða skimunina fyrir viðskiptavini sína meðan hennar nýtur við. „Við vonumst til þess að eftir því sem önnur lönd opnist og reynsla kemst á þetta að það þurfi ekki að fara í gegnum þessar skimanir, en þetta er ágætis leið til þess að byrja.“

Styrmir segir það hag allra að fá fleiri ferðamenn til landsins, hann hvetur því önnur fyrirtæki til að minnka óvissu viðskiptavini sinni og fara sömu leið.

„Þó við séum í samkeppni við önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi, þá erum við einnig samstarfsaðilar og við erum öll í sama bátnum að kynna Ísland sem áfangastað,“ segir Styrmir.

„Við erum að hvetja samstarfsaðila og samkeppnisaðila að taka upp svipað form og aðstoða viðskiptavininn í ákvarðanatökunni um að koma til Íslands.“


Tengdar fréttir

Skila­boð um niður­stöður hafa ekki alltaf skilað sér

Ýmis vandamál hafa komið upp við skimun á landamærunum eins og við var búist. Meðal þess sem unnið er að því að bæta er upplýsingagjöf til ferðamanna og tryggja að allt sé skýrt við komuna til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×