Innlent

Skila­boð um niður­stöður hafa ekki alltaf skilað sér

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lögreglan

Ýmis vandamál hafa komið upp við skimun á landamærunum eins og við var búist. Meðal þess sem unnið er að því að bæta er upplýsingagjöf til ferðamanna og tryggja að allt sé skýrt við komuna til landsins.

Á upplýsingafundi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir framkvæmdina ganga vel fyrir sig. Hnökrar væru þó enn að koma upp og helstu vandræðin væru upplýsingagjöf til einstaklinga varðandi niðurstöður úr sýnatökum.

Alma D. Möller landlæknir sagði dæmi um að niðurstöður hefðu ekki komist til skila með SMS skilaboðum. Því væri öruggast að sækja appið þar sem væri einnig hægt að fá samband við heilbrigðisstarfsfólk í gegnum netspjall.

Alma D. Möller landlæknir.Lögreglan

Aukning hefur orðið í notendum appsins og segir Alma það benda til þess að ferðamenn séu að nýta sér það. Notendum fjölgar um nokkur hundruð milli daga en þann 15. júní síðastliðinn voru um 143.300 notendur.

Þá er áætlað að gera upp skimunina eftir tvær vikur og útfæra framhaldið nánar. Að sögn Þórólfs verður það þó gert fyrr ef eitthvað óvænt kemur upp. Hann segir þó skimunina mikilvægt tæki til þess að hafa betri yfirsýn yfir faraldurinn og þær upplýsingar sem safnast við hana séu mikilvægar.

Frá því að skimun hófst á mánudag hafa tæplega þrjú þúsund komið til landsins. Af þeim hafa sýni verið tekin frá 2.400 og hafa sex greinst með veiruna. Tveir eru taldir vera smitandi og eru því í einangrun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×