Innlent

Fleiri en 1.500 skjálftar eftir að hrinan hófst

Sylvía Hall skrifar
Skjálftavirkni hefur verið mikil á svæðinu.
Skjálftavirkni hefur verið mikil á svæðinu. Veðurstofa Íslands

Yfir 1.500 jarðskjálftar hafa mælst undanfarna tvo sólarhringa frá því að jarðskjálftahrina hófst um tuttugu kílómetra norðaustur af Siglufirði. Tveir stærstu skjálftarnir urðu klukkan 15:05 og 19:26 og mældust 5,4 og 5,6 að stærð.

Íbúar á Norðurlandi fundu vel fyrir skjálftanum en engar tilkynningar um tjón eða slys á fólki bárust í kjölfar hans. Jarðskjálftinn fannst alla leið vestur í Dalasýslu á Ísafirði og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra. Eftir skjálftann varð mikið grjóthrun úr fjallshlíðum á Norðurlandi og varaði lögreglan ferðafólk sérstaklega við hættu sem því gæti fylgt.

Aukið eftirlit verður með svæðinu ef ske kynni að ástandið færi að ógna heilsu eða öryggi fólks á svæðinu. Fólk er jafnframt hvatt til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta sé það á þekktum jarðskjálftasvæðum.

Í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu. Líkur eru á að fleiri stórir skjálftar verði en í samtali við fréttastofu í gærkvöldi sagði sérfræðingur Veðurstofunnar um skjálftavirkni að svona hrinur ættu það til að standa yfir í dálítið langan tíma.


Tengdar fréttir

Skjálftahrinan gæti staðið yfir í nokkra daga

„Svona öflugar hrinur eiga það til að standa yfir í dálítið langan tíma, alveg þess vegna í nokkra daga,“ segir sérfræðingur Veðurstofunnar um skjálftavirkni sem gætt hefur á Norðurlandi síðasta sólarhringinn.

Engar tilkynningar um tjón eða slys

Engar tilkynningar um tjón eða slys á fólki hafa borist á borð Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra eftir að jarðskjálfti að stærð 5,6 reið yfir landið á áttunda tímanum í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×