Enski boltinn

Guardiola veit að Sane fer: Elska hann svo mikið en hann vill fara á nýjar slóðir

Sindri Sverrisson skrifar
Leroy Sane var í leikmannahópi Manchester City gegn Arsenal á miðvikudag en kom ekkert við sögu.
Leroy Sane var í leikmannahópi Manchester City gegn Arsenal á miðvikudag en kom ekkert við sögu. VÍSIR/GETTY

Þýski knattspyrnumaðurinn Leroy Sane er staðráðinn í að yfirgefa Manchester City og hefur hafnað nokkrum tilboðum frá félaginu. Hann hefur verið orðaður við Bayern München síðustu 12 mánuði.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, staðfesti það í gær að Sane væri á förum. „Hann vill fara í annað félag. Ég veit ekki hvort það verður í sumar eða næsta sumar þegar að samningur hans rennur út,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi.

Sane kom til City frá Schalke í Þýskalandi fyrir 37 milljónir punda árið 2016, og skrifaði þá undir samning til fimm ára. Þessi 24 ára gamli kantmaður hefur ekki spilað síðan í ágúst eftir að hafa slitið krossband í hné í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Ljóst er að Guardiola vildi halda Sane lengur í Manchester en hann sagði félagið hafa rætt „tvisvar til þrisvar“ sinnum við leikmanninn um nýjan samning. „Þegar við bjóðum leikmanni samning þá er það vegna þess að við viljum hann. Hann er með sérstaka hæfileika. Við viljum leikmenn sem vilja spila fyrir félagið og ná markmiðum. Hann er góður náungi og ég elska hann svo mikið. Ég hef ekkert á móti honum en hann vill feta nýjar slóðir,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×