Innlent

Helgi Björns borgarlistamaður Reykjavíkur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Helgi Björnsson ásamt Víði Reynissyni, Ölmu Möller og Þórólfi Guðnasyni á Bessastöðum í dag þar sem þau fengu riddarakross.
Helgi Björnsson ásamt Víði Reynissyni, Ölmu Möller og Þórólfi Guðnasyni á Bessastöðum í dag þar sem þau fengu riddarakross. Vísir/Sigurjón

Helgi Björnsson, leikari og tónlistarmaður, var valinn Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2020. Helgi hlaut einnig riddarakross í dag fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og leiklistar. Helgi var útnefndur Borgarlistamaður við hátíðlega athöfn í Höfða.

Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem með listsköpun sinni hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi og samfélagi. Hjálmar Sveinsson formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs gerði grein fyrir einhuga vali ráðsins á Helga. Listamanninum var veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé.

Helgi er fæddur á Ísafirði 10. Júlí árið 1958. Foreldrar hans eru María Gísladóttir fyrrverandi leikskólakennari og Björn Helgason fyrrverandi málarameistari, skíðakappi og landsliðsmaður í fótbolta. Eiginkona Helga er Vilborg Halldórsdóttir leikkona, leikari, leiðsögumaður og textahöfundur með meiru.

Helgi hefur sjálfur sagt að hann var farinn bæði að leika og syngja sem strákur og ákvað 10 ára að hann ætlaði að verða poppstjarna þegar hann yrði stór.

Hann komst inn í leiklistarskólann haustið 1979 og útskrifaðist þaðan vorið 1983 ásamt Vilborgu og fleiri landsþekktum leikurum.

Við útskrift úr Leiklistarskólanum fékk Helgi tvö vinnutilboð: að syngja með hljómsveitinni Grafík og að taka að sér hlutverk Arngríms Árland í kvikmyndinni Atómstöðin. Hann tók báðum tilboðum og þannig hófst hans tvískipti ferill, en allt frá þessu fyrsta sumri hefur hann jöfnum höndum sungið og leikið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.