Innlent

430 einstaklingar fengið undanþágu frá hefðbundinni sóttkví

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Flestir þeirra sem fengið hafa undanþágu frá hefðbundinni sóttkví og í staðinn farið í svokallaða vinnusóttkví starfa í matvælaframleiðslu. Lang flestir þeirra sem nýtt hafa undanþáguna eru með skráð lögheimili á Íslandi.

Heilt yfir hafa 430 einstaklingar fengið undanþágu frá hefðbundinni sóttkví og í staðinn farið í svokallaða vinnusóttkví sem er kölluð sóttkví B.

Framan af,  á meðan að fjöldi smita var í hámarki hér á landi var aðeins veitt undanþága fyrir starfsfólk sem þótti samfélagslega mikilvægt. Til að mynda starfsfólk í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Eftir að slakað var á reglum um sóttkví B fjölgaði undanþágum.

„Lang stærsti hlutinn hefur tengst matvælaframleiðslu, þetta eru sérfræðingar varðandi fiskeldi og annað. Hinn hópurinn eru starfsmenn sem tengjast mikilvægum innviðum eins og fjarskiptum og raforkukerfum, þeir eru þá sérfræðingar í einhverjum ákveðnum búnaði sem hefur bilað og þurft að laga,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.

Ekki hafa verið afgreiddar margar undanþágur vegna kvikmyndaframleiðslu. Langflestir þeirra sem hafa fengið undanþágu frá hefðbundinni sóttkví eru með skráð lögheimili á Íslandi, Norðurlöndum, Bretlandi og Kanada.

„Lang stærsti einstaki hópurinn sem hefur farið í sóttkví B eru Íslendingar sem vegna starfa sinna hafa þurft að fara í sóttkví en farið í þessa sóttkví B því kannski allur vinnustaðurinn þurfti að fara í sóttkví. Nærtækasta dæmið fyrir okkur er smitrakningateymið okkar. Þar kom upp hugsanlegt smit og allt teymið fór í sóttkví B en allur hópurinn var þá saman í sóttkvínni, saman í vinnunni og blandaðist engum öðrum. Þennan hóp settum við á hótel til að hafa hann aðskilinn öðrum,“ sagði Víðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×