Erlent

Hætta við að fjar­lægja Þjóð­verja­þátt Hótels Tinda­stóls

Atli Ísleifsson skrifar
Fawlty Towers var fyrst sýndur á áttunda áratug síðustu aldar og er einn vinsælasti gamanþáttur sögunnar.
Fawlty Towers var fyrst sýndur á áttunda áratug síðustu aldar og er einn vinsælasti gamanþáttur sögunnar.

Streymisveita í eigu BBC hefur dregið í land og hætt við að fjarlægja einn þáttanna í þáttaröðinni Hótel Tindastól (e. Fawlty Towers). Þess í stað verði bætt við viðvörun um að þátturinn innihaldi efni og orðfæri sem kunni að vera móðgandi.

Þátturinn sem um ræðir nefnist Þjóðverjarnir (e. The Germans) þar sem hóteleigandinn Basil Fawlty, í túlkun leikarans John Cleese, fer ítrekað með setninguna „Ekki minnast á stríðið” eða „Don’t mention the war“. 

Greindi streymisveitan UKTV frá því að þátturinn yrði fjarlægður þar sem hann innihéldi rasískt orðfæri, en í þáttunum ræðir „majórinn“, fastagestur á hótelinu, meðal annars um krikketlið Vestur-Indía.

Framleiðslufyrirtæki og streymisveitur hafa síðustu daga fjarlægt einstaka þætti og þáttaraðir af veitum sínum í kjölfar mótmæla í tengslum við dauða Bandaríkjamannsins George Floyd. Þannig hafa BBC og Netflix fjarlægt gamanþættina Little Britain sökum gagnrýni í garð atriða þar sem leikarinn David Walliams er málaður svartur í framan.

John Cleese, skapari og aðalleikari þáttanna, gagnrýndi ákvörðunina um að taka þáttinn úr birtingu harðlega í gær þar sem hann sagði ákvörðun BBC „huglausa, duglausa og fyrirlitlega“. Sagði hann BBC nú stjórnað af markaðsfólki og smámunasömum skriffinnum.

Basil Fawlty minnist á stríðið.

„Ég hefði viljað vona að einhver hjá BBC skildi að það er tvær leiðir til að gera grín að mannlegri hegðun. Önnur er að ráðast beint á hana. Hin er að láta einhver sem er augljóslega grínfígúra tala fyrir slíkri hegðun,“ tísti gamanleikarinn.

Fawlty Towers var fyrst sýndur á áttunda áratug síðustu aldar og er einn vinsælasti gamanþáttur sögunnar. Alls voru þáttaraðirnar tvær og þættirnir í heildina tólf. Segir þar frá hóteleigandanum misheppnaða Basil Fawlty, eiginkonu hans Sybil, spænska þjóninum Manuel og þjónustustúlkunni Polly og samskiptum þeirra við gesti hótelsins.


Tengdar fréttir

Cleese segir BBC „bleyður“ að taka „Hótel Tindastól“ úr sýningu

Ákvörðun breska ríkisútvarpsins BBC um að taka þátt úr þáttaröðinni „Hótel Tindastóli“ úr sýningu er „huglaus, duglaus og fyrirlitlleg“, að mati Johns Cleese, gamanleikarans sem fór með aðalhlutverkið í þáttunum. Þátturinn var fjarlægður úr efnisveitu BBC vegna kynþáttaníðs sem ein persónan hefur uppi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×