Enski boltinn

Skipta nöfnum leikmanna í enska út fyrir „Black Lives Matter“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah verður ekki með eftirnafn sitt aftan á Liverpool treyjunni í næsta leik liðsins í ensk úrvalsdeildinni sem verður á móti Everton á Goodison Park.
Mohamed Salah verður ekki með eftirnafn sitt aftan á Liverpool treyjunni í næsta leik liðsins í ensk úrvalsdeildinni sem verður á móti Everton á Goodison Park. Getty/Catherine Ivill

Enska úrvalsdeildin hefst á ný á Þjóðhátíðardag Íslendinga í næstu viku og við munum sjá áberandi mun á keppnistreyjum leikmanna liðanna í leikjum fyrstu umferðarinnar eftir þriggja mánaða hlé.

Ensku úrvalsdeildarliðin hafa nefnilega samþykkt það að skipta út nöfnum leikmanna á keppnistreyjunum. Í stað eftirnafna leikmanna verða sett einkunnarorð réttindabaráttu svartra, „Black Lives Matter“, og með því er ætlunin að vekja athygli á og sýna réttindabaráttu blökkumanna stuðning.

Tillagan var samþykkt á fundi ensku úrvalsdeildarinnar liðanna í gær en enskir miðlar segja frá þessu.

Þetta verður samt ekki eina breytingin á búningum leikmanna því á þeim verður einnig hjartalagað barmmerki til heiðurs starfsmanna breska heilbrigðiskerfisins sem hafa staðið í ströngu í baráttunni við kórónuveiruna.

Það er ekki búið að ákveða nákvæma staðsetningu barmmerkisins en það á að vera framan á keppnistreyjum leikmanna.

Leikmenn fá einnig leyfi til þess að fara niður á hnén til að sýna réttindabaráttu svartra stuðnings en í Þýskalandi hafa lið stillt sér þannig upp við miðjuhringinn fyrir marga leiki að undanförnu.

Enska úrvalsdeildin fer aftur af stað með leik Aston Villa og Sheffield United á miðvikudaginn og strax á eftir verður síðan spilaður leikur Manchester City og Arsenal. Þessi fjögur lið áttu einmitt leik inni á hin lið deildarinnar. Eftir þessa leiki munu öll tuttugu lið deildarinnar eiga eftir að spila níu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×