Enski boltinn

Missir af leiknum gegn Man. United eftir að hafa gert grín að Asíu­búa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dele Alli.
Dele Alli. vísir/getty

Dele Alli, miðjumaður Tottenham, hefur verið dæmdur í eins leiks bann eftir hegðun sína á samfélagsmiðlum á tímum kórónuveirunnar.

Enski landsliðsmaðurinn mun því missa af leiknum gegn Manchester United á föstudagskvöldið eftir átta daga en enski boltinn fer aftur af stað 17. júní.

Alli, sem er 23 ára gamall, sást með andlitsgrímu á flugvelli. Hann beindi svo myndavélinni á símanum sínum að grunlausum asískum manni sem sat skammt frá honum og loks að flösku með sótthreinsandi efni.

Alli var mikið gagnrýndur fyrir þetta og síðar meir baðst hann afsökunar á myndbandinu. Nú hefur enska knattspyrnusambandið hins vegar dæmt hann í eins leiks bann og mun hann því missa af leiknum mikilvæga um aðra helgi.

Hann fer ekki bara í eins leiks bann heldur þarf einnig að greiða sekt sem hljóðar upp á 50 þúsund pund sem jafngildir rúmlega átta milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×