Fótbolti

Mæta Bæjurum í „Black Lives Matter“ treyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Búningur kvöldsins hjá Eintracht Frankfurt á móti Bayern München í þýska bikarnum en myndin er af Twitter-síðu Eintracht Frankfurt.
Búningur kvöldsins hjá Eintracht Frankfurt á móti Bayern München í þýska bikarnum en myndin er af Twitter-síðu Eintracht Frankfurt. Mynd/Twitter

Eintracht Frankfurt mun styðja réttindabaráttu svartra í kvöld þegar liðið reynir að slá stórliði Bayern München út úr þýsku bikarkeppninni og komast í bikarúrslitaleikinn á móti Bayer Leverkusen.

Eintracht Frankfurt vann bikarinn fyrir tveimur árum og á möguleika á því að komast í sinn þriðja bikarúrslitaleik á fjórum árum.

Verkefnið í kvöld getur þó varla orðið erfiðara því liðið mætir þartoppliði Bayern München sem eru auk þess ríkjandi bikarmeistarar og á heimavelli á Allianz Arena.

Leikmenn Eintracht Frankfurt verða í treyjum með „Black Lives Matter“ kjörorð framan á þeim.

„Black Lives Matter“ eða „Lif svarta skiptir máli“ eru einkennisorð réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum en mikil mótmæli hafa verið út um allan heim eftir að blökkumaðurinn George Floyd dó eftir að hvítur lögreglumaður lá með hné sitt ofan á hálsi hans í tæpar níu mínútur.

Eintracht Frankfurt segir frá búningi kvöldsins á samfélagsmiðlum sínum með mynd af búningnum og eftirfarandi orðum:

„Á hverju degi: Hlustið. Skiljið. Spyrjið. Standið upp. Talið. Berjist fyrir umburðarlyndi og fjölbreytni. Útrýmum rasisma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×