Innlent

Skóflu­stunga tekin að nýrri gesta­stofu Vatna­jökuls­þjóð­garðs

Andri Eysteinsson skrifar
Guðmundur Ingi, Magnús, Ásta Berghildur og Sandra Brá tóku skóflustungur í gær.
Guðmundur Ingi, Magnús, Ásta Berghildur og Sandra Brá tóku skóflustungur í gær. Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustungu að nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á sunnudaginn. Gestastofan mun rísa við Sönghól í landi Hæðargarðs sunnan Skaftár.

Auk ráðherrans tóku Ásta Berghildur Ólafsdóttir, formaður svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps og Magnús Þorfinnsson bóndi í Hæðargarði skóflustungur. Landið sem byggingin mun rísa á er gjöf til Vatnajökulsþjóðgarð frá Magnúsi í Hæðargarði. Greint er frá skóflustungunni á vef Stjórnarráðsins.

,Þetta er stór áfangi í áframhaldandi uppbyggingu gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs,“ sagðir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. ,,Gestastofur eru eins og hlið inn í þjóðgarða. Gestastofan er líka innspýting og aðdráttarafl fyrir samfélagið í Skaftárhreppi og ég óska okkur öllum til hamingju með þennan áfanga.“

Gestastofan verður meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara. Byggingin verður 620 m2 á einni hæð auk 145 m2 kjallara eða samtals 765 m2 að flatarmáli.

Fyrsti áfangi framkvæmdarinnar hefur þegar verið boðinn út og er áætlað að framkvæmdum ljúki í ágúst. Unnið er að undirbúningi vegna jarðvegsvinnu og við bygginguna sjálfa sem gert er ráð fyrir að verði skilað í lok árs 2022.

Athöfnin fór, eins og áður segir, fram sunnudaginn 7. júní á 12 ára afmæli þjóðgarðsins. Tónlistarfólkið Zbigniew Zuchowicz, Bríet Sunna Bjarkadóttir og Teresa Zuchowicz léku við athöfnina og í veislukaffi í umsjón Kvenfélags Kirkjubæjarhrepps sem boðið var til í félagsheimilinu Kirkjuhvoli að athöfn lokinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×