Erlent

Notkun táragass sætir gagnrýni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin í Orlando í Flórída þann 2. júní þar sem lögregla hafði beitt táragasi gegn mótmælendum. 
Þessi mynd er tekin í Orlando í Flórída þann 2. júní þar sem lögregla hafði beitt táragasi gegn mótmælendum.  AP

Notkun táragass gegn mótmælendum í Bandaríkjunum sætir verulegri gagnrýni í þeirri mótmælaöldu sem þar nú geysar. Ekki síður í ljósi þess að táragas er flokkað sem efnavopn sem bannað er að nota í stríði.

Í fréttum og á samfélagsmiðlum hefur birst fjöldinn allur af myndum og myndböndum undanfarnar vikur þar sem lögregla sést beita piparúða og jafnvel táragasi gegn mótmælendum.

Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um notkun lögreglunnar á táragasi gegn mótmælendum og sett í samhengi við þá staðreynd að táragas er efnavopn sem samkvæmt alþjóðalögum er bannað er að beita í stríði. Lögreglu er aftur á móti heimilt að beita táragasi til að dreifa mannfjölda í þeim tilgangi að koma í veg fyrir uppþot og óeirðir. Með öðrum orðum: Lögregla má beita því gegn borgurum í óeirðum innanlands en hermenn ekki í stríði.

Lögreglan í New Orleans svaraði fyrir beitingu lögreglunnar á táragasi gegn mótmælendum þar í borg á miðvikudaginn.

„Við réðumst ekki á neinn. Við beittum ekki gasi á friðsöm mótmæli. Við notuðum gas á einstaklinga sem kusu að beita valdi gegn lögreglumönnum þegar þeir voru einfaldlega að reyna að vernda líf borgaranna okkar og annarra sem kusu að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til friðsamlegra mótmæla,“ sagði yfirlögregluþjónninn Shaun Ferguson í yfirlýsingu. Réttlæting valdstjórnarinnar á beitingu táragass hefur fallið í grýttan jarðveg.

Táragas getur valdið margvíslegum einkennum, svo sem sviða og stingandi brunatilfinningu í húð, augum og munni, andþrengslum, hósta og jafnvel útbrotum og blöðrum eftir langvarandi snertingu við efnið. Einkenni líða þó oftast fljótt hjá þegar fólk kemst í burtu úr menguninni að því er lesa má í fræðsluefni á vef Landspítalans.

Táragasi hefur ekki aðeins verið beitt gegn mótmælendum í Bandaríkjunum heldur einnig víða um heiminn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.