Erlent

Fær­eyskir þing­menn vildu ekki verða þing­konur

Sylvía Hall skrifar
Þrettán greiddu atkvæði gegn tillögunni en ellefu voru fylgjandi.
Þrettán greiddu atkvæði gegn tillögunni en ellefu voru fylgjandi. Vísir/Getty

Færeyska þingið felldi í gær lagabreytingartillögu þess efnis að kvenkyns þingmenn yrðu kallaðir þingkonur. Þrettán greiddu atkvæði gegn tillögunni en ellefu voru fylgjandi.

Kringvarpið fjallaði um málið í gær í fréttaþættinum Dagur og vika þar sem nokkrir karlkyns þingmenn voru spurðir álits. Ávarpaði fréttamaðurinn þá alla sem þingkonur í upphafi spurningarinnar, sem kallaði fram misjöfn viðbrögð hjá þingmönnunum.

„Ég er lögþingsmanneskja fyrir Sambandsflokkinn, við skulum segja það,“ sagði Johan Dahl, þingmaður Sambandsflokksins, aðspurður hvort hann tæki undir tillöguna um að kvenkyns þingmenn yrðu þingkonur samkvæmt lögum. Hann sagði það ekki breyta neinu fyrir sig ef konurnar yrðu kallaðar þingkonur.

Högni Hoydal, þingmaður Tjóðveldi, hló þegar hann var ávarpaður sem þingkona.

„Maður verður að athuga að maður hefur breiðari merkingu,“ sagði Jenis av Rana, þingmaður Miðflokksins eftir að hafa spurt fréttamanninn hvort það væru mismæli þegar hann var ávarpaður sem þingkona. Bill Justinusson samflokksmaður hans tók svipaðan pól í hæðina og sagði orðið kona ekki þýða manneskja, en maður næði yfir bæði kyn.

Þá voru misjafnar skoðanir á því hvernig þeim þætti að vera allir kallaðir þingkonur ef það hefði viðgengist í einhver ár. Töldu einhverjir það vera undarlegt en flestir voru þingmennirnir þó sammála um það að þingkonurnar mættu kalla sig þingkonur, þó það væri ekki lögfest heiti.

Hér má sjá innslagið í Degi og viku en það hefst á mínútu 02:00.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×