Innlent

Skipaði Einar í stað Halldóru þvert á tillögu sérfræðinga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Vísir/vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fór á svig við tillögu sérfræðinga í menntamálráðuneytinu þegar hún skipaði Einar Huga Bjarnason formann fjölmiðlanefndar í nóvember. Þetta hefur RÚV upp úr minnisblaði til ráðherra en þar var mælt með að skipa Halldóru Þorsteinsdóttur, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og einn helsta sérfræðing landsins í fjölmiðlarétti, formann nefndarinnar.

Einar Hugi Bjarnason.

Þess í stað var Einar Hugi skipaður formaður. Hann hefur litla sem enga reynslu á sviði fjölmiðla en hefur setið í minnst átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Talsverður sjór gengur nú yfir Lilju vegna skipunar hennar á Páli Magnússyni flokksbróður hennar í starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Hún er fullum fetum vænd um að hygla flokksgæðingi eftir að kærunefnd jafnréttismála felldi sinn úrskurð nú í vikunni; með ráðningunni braut ráðherra jafnréttislög. Einar Hugi var einmitt formaður hæfnisnefndarinnar um mat á umsækjendum um stöðu áðurnefnds ráðuneytisstjóra.

RÚV greinir frá því að Halldóru hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða skipan hennar sem formanns fjölmiðlanefndar í ágúst í fyrra. Aldrei fékk hún þó sent skipunarbréf og loks var henni tjáð í gegnum síma að Lilja vildi skipa Einar Huga.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×