Innlent

Haf­dís hefur vísað ráðu­neytis­stjóra­málinu til um­boðs­manns Al­þingis

Jakob Bjarnar skrifar
Með skipan Páls Magnússonar í stöðu ráðuneytisstjóra hefur Lilja nú gerst brotleg við jafnréttislög. Yfirmaður jafnréttismála er Katrín Jakobsdóttir. Málið gæti þannig haft áhrif á stjórnarsamstarfið.
Með skipan Páls Magnússonar í stöðu ráðuneytisstjóra hefur Lilja nú gerst brotleg við jafnréttislög. Yfirmaður jafnréttismála er Katrín Jakobsdóttir. Málið gæti þannig haft áhrif á stjórnarsamstarfið.

Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu, íhugar nú stöðu sína eftir að fyrir lá niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að á henni hafi verið brotið þegar hún sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu. Hún hefur vísað málinu til umboðsmanns Alþingis. Að sögn lögmanns hennar Áslaugar Árnadóttur var það gert þegar í janúar. Ekki er vitað hvenær niðurstöðu er að vænta þaðan en í kjölfar þess verður tekin ákvörðun um hvort gripið verður til þess ráðs að kæra málið.

Sökuð um að hygla flokksmanni

Talsverður sjór gengur nú yfir Lilju vegna skipunar hennar á Páli Magnússyni flokksbróður hennar í starf ráðuneytisstjóra. Hún er fullum fetum vænd um að hygla flokksgæðingi eftir að kærunefnd jafnréttismála felldi sinn úrskurð nú í vikunni; með ráðningunni braut ráðherra jafnréttislög. Hafdís var að mati nefndarinnar hæfari en Páll.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er í nokkrum vanda eftir að kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að brotið hafi verið á Hafdísi Helgu Ólafsdóttur við ráðningu ráðuneytisstjóra.vísir/vilhelm

„Við skipun í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á síðasta ári var farið eftir niðurstöðum lögbundinnar hæfnisnefndar sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Hæfnisnefndin var skipuð hæstaréttarlögmanni, fyrrum rektor Háskóla Íslands og sérfræðingi í mannauðsmálum,“ segir í skriflegu svari Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn fréttastofunnar nú fyrr í dag.

Treysti niðurstöðu hæfisnefndar

Málið kom til tals á Alþingi í morgun og greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þá frá því að Lilja muni gera frekari grein fyrir málinu á ríkisstjórnarfundi á morgun. Málið er talið grafalvarlegt. Lilja segist hins vegar hafa lagt allt sitt traust á hæfisnefndina.

Að sögn Áslaugar Árnadóttur, lögmanns Hafdísar, er málið nú til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis. Þegar álit þaðan liggur fyrir verða teknar ákvarðanir um næstu skref.

„Við mat hæfnisnefndarinnar og með sjálfstæðu mati ráðherra var horft til málefnalegra sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um embættið. Við sjálfstætt mat ráðherra taldi hann ekki ástæðu til að víkja frá niðurstöðu hæfnisnefndarinnar en eins og fram kemur í skýringum með lögunum þurfa að liggja fyrir veigamiklar, hlutlægar eða málefnalegar ástæður til að víkja frá mati hæfnisnefndar. Því var skipaður ráðuneytisstjóri úr hópi þeirra fjögurra sem metin höfðu verið hæfust, að undangengnum viðtölum. Umsækjendunum fjórum, tveimur konum og tveimur körlum, voru gefnar einkunnir samkvæmt skýru verklagi,“ segir í svari Lilju.

Formaður hæfisnefndar trúnaðarmaður Lilju

Ríkisútvarpið greindi frá því að formaður hæfisnefndarinnar, lögmaðurinn Einar Hugi Bjarnason hefur notið sérstaks trúnaðar Lilju og gegnir hann formennsku í fjórum nefndum á vegum hennar. 

Vísir greindi frá áliti Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðing á þessum gerningi en hann telur að um mjög alvarlegt brot sé að ræða sem snúi að plágu sem gengið hefur ljósum logum í stjórnsýslunni; þar sem samflokksfólki ráðamanna hafi verið hyglað. Haukur telur hins vegar það hvort eitthvað komi út úr þessu ráðast af því til hvaða aðgerða Helga hyggst grípa.

Einar Hugi Bjarnason formaður hæfisnefndarinnar nýtur sérstaks trúnaðar Lilju Alfreðsdóttur og gegnir formennsku í nokkrum nefndum á vegum menntamálaráðherra.

Áslaug lögmaður segir misskilnings gæta í áliti Hauks hvað það varðar að hægt sé að kæra sig inn í stöður. Það hafi aldrei gerst. Því er bótakrafa eina úrræði þeirra aðila sem í slíku lenda. Eins og öfugsnúið og það kunni að vera, að fá bætur fyrir stöðu sem fólk ekki fær.

Gæti truflað ríkisstjórnarsamstarfið

Hanna Friðriksson þingmaður Viðreisnar, sem hefur gagnrýnt allan málatilbúnaðinn harðlega, var í viðtali í Harmageddon í vikunni, þar sem hún kom meðal annars inn á þetta. Yfirleitt yrðu engar afleiðingar í málum sem þessu, sem snúa að nepótisma, aðrar en einhver óþægindi fyrir viðkomandi. En stöðurnar væru eftir sem áður í höndum þeirra sem þær voru ætlaðar, flokkshollum einstaklingum og ef til bókagreiðslu kæmi þá þyrfti almenningur, skattgreiðendur, að borga það.

„Þannig er þetta. En Hafdís hefur ekki enn tekið afstöðu til þess hvað verður. Hún ætlar að bíða og sjá hvað gerist,“ segir Áslaug. Hún segir að atriði sem umboðsmaður sé að skoða snúi ekki aðeins að mismunun sem var til umfjöllunar hjá kærunefnd jafnréttismála heldur einnig stjórnsýslulegum atriðum.

Það sem svo flækir málið enn er staða Hafdísar. Hún er skrifstofustjóri í ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, sem er yfirmaður jafnréttismála í landinu. Það stendur því upp á hana að finna út úr því hvernig bregðast beri við þessu broti gegn jafnréttislögum. Þannig getur málið haft áhrif á stjórnarsamstarfið. Hvernig er hins vegar erfitt um að segja.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×