Fótbolti

„Voru með 150 í púls þegar þeir voru að fara sofa“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Spekingarnir í settinu.
Spekingarnir í settinu. vísir/s2s

Tveir af spekingum Pepsi Max-markanna í sumar, Þorkell Máni Pétursson og Sigurvin Ólafsson, eru sammála því að Skagamenn munu ekki lenda í fallbaráttu í sumar og gætu þeir mögulega unnið „neðri deild“ Pepsi Max-deildarinnar.

Skagamenn voru til umræðu í þriðja upphitunarþætti Pepsi Max-markanna í gærkvöldi en spekingarnir voru báðir sammála því að Skagamenn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að leika í Lengjudeildinni á næstu leiktíð.

„Það fer eftir því hvernig þeir ákveða að stilla væntingarnar. Það er enginn að fara sætta sig við það að HK sé í heimsókn og Skaginn er að liggja til baka og ekki stjórna leiknum. Fólkið í brekkunni er ekki vant þessu og þar af leiðandi verða alltaf væntingar upp á Skaga,“ sagði Þorkell Máni.

„Ég held að frábær árangur væri fimmta til sjötta sæti. Þeir gætu dottið í einhverja botnbaráttu en ég held að þeir eigi eftir að enda ekki ofarlega, það er frátekið, en þeir gætu unnið neðri deildina.“

Sigurvin Ólafson tók í sama streng og sagði að þeir myndu ekki lenda í vandræðum í sumar. Þeir séu nú reynslunni ríkari frá því í fyrra.

„Eins leiðinlegt og það er, þá er ég sammála þér. Ég held þeir fari ekki í fallbaráttu bara út af þeir eru allt of klikkaðir til þess. Þeir láta það ekki gerast. Þetta eru ljón grimmir náungar og eru búnir að finna blóðbragðið eftir fyrstu sex umferðirnar í fyrra,“ sagði Sigurvin.

„Þeir unnu eiginlega öll sterkustu liðin í fyrra og nú eru væntingarnar minni. Í fyrra voru væntingar. Þeir byrjuðu vel og þeir voru með 150 í púls þegar þeir voru að fara sofa.“

Klippa: Hvar endar ÍA?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×