Erlent

George Floyd minnst í Minneapolis

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacob Frey og Sarah Clarke, borgarstjórahjónin í Minneapolis, sjást hér við líkkistuna.
Jacob Frey og Sarah Clarke, borgarstjórahjónin í Minneapolis, sjást hér við líkkistuna. Vísir/AP

Minningarathöfn um George Floyd, svartan Bandaríkjamann sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa myrt í síðustu viku, stendur nú yfir í Minneapolis. Enn er mótmælt víðs vegar um heiminn.

Athöfnin á að standa yfir til klukkan átta og munu fjölskylda, vinir og vandamenn flytja ræður um hinn látna. Þaðan verður lík Floyd flutt til annarrar minningarathafnar í Norður-Karólínu og síðan til æskuslóða hans í Houston í Texas þar sem hann verður jarðsettur.

Mótmælt víða um heim

Áfram er lögregluofbeldi mótmælt innan sem utan Bandaríkjanna. Að minnsta kosti þrjú þúsund Grikkir gengu um götur Aþenu í dag. Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda eftir að lögregluþjónar vörpuðu táragasi.

Enn fleiri mótmæltu í Lundúnum og lítill hópur safnaðist saman fyrir utan skrifstofu ræðismanns Bandaríkjanna í Istanbúl.

Trump svarar Mattis

Þungamiðja mótmælanna er þó enn í Bandaríkjunum og ekki er útlit fyrir að þeim linni í bráð. Eldsnemma í morgun var strax farið að mótmæla fyrir utan Hvíta húsið, bústað Donalds Trump forseta, í Washington. 

Trump var þó ef til vill að hugsa um annað, en James Mattis, varnarmálaráðherra fyrstu ára forsetatíðar Trumps, sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem hann skaut fast á forsetann. Líkti honum við nasista og sagði hann fyrsta forseta ævi sinnar sem reyndi ekki að sameina Bandaríkjamenn heldur sundra þeim.

Trump brást við á Twitter og sagði það hafa verið mikinn heiður að fá að reka Mattis á sínum tíma. Mattis hefur reyndar sagst hafa hætt að eigin frumkvæði, vegna ákvörðunar forsetans um að kalla herinn heim frá Sýrlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×