Erlent

George Floyd minnst í Minneapolis

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacob Frey og Sarah Clarke, borgarstjórahjónin í Minneapolis, sjást hér við líkkistuna.
Jacob Frey og Sarah Clarke, borgarstjórahjónin í Minneapolis, sjást hér við líkkistuna. Vísir/AP

Minningarathöfn um George Floyd, svartan Bandaríkjamann sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa myrt í síðustu viku, stendur nú yfir í Minneapolis. Enn er mótmælt víðs vegar um heiminn.

Athöfnin á að standa yfir til klukkan átta og munu fjölskylda, vinir og vandamenn flytja ræður um hinn látna. Þaðan verður lík Floyd flutt til annarrar minningarathafnar í Norður-Karólínu og síðan til æskuslóða hans í Houston í Texas þar sem hann verður jarðsettur.

Mótmælt víða um heim

Áfram er lögregluofbeldi mótmælt innan sem utan Bandaríkjanna. Að minnsta kosti þrjú þúsund Grikkir gengu um götur Aþenu í dag. Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda eftir að lögregluþjónar vörpuðu táragasi.

Enn fleiri mótmæltu í Lundúnum og lítill hópur safnaðist saman fyrir utan skrifstofu ræðismanns Bandaríkjanna í Istanbúl.

Trump svarar Mattis

Þungamiðja mótmælanna er þó enn í Bandaríkjunum og ekki er útlit fyrir að þeim linni í bráð. Eldsnemma í morgun var strax farið að mótmæla fyrir utan Hvíta húsið, bústað Donalds Trump forseta, í Washington. 

Trump var þó ef til vill að hugsa um annað, en James Mattis, varnarmálaráðherra fyrstu ára forsetatíðar Trumps, sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem hann skaut fast á forsetann. Líkti honum við nasista og sagði hann fyrsta forseta ævi sinnar sem reyndi ekki að sameina Bandaríkjamenn heldur sundra þeim.

Trump brást við á Twitter og sagði það hafa verið mikinn heiður að fá að reka Mattis á sínum tíma. Mattis hefur reyndar sagst hafa hætt að eigin frumkvæði, vegna ákvörðunar forsetans um að kalla herinn heim frá Sýrlandi.

Tengd skjölAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.