Innlent

Óskar eftir skýringum á fram­göngu sér­sveitarinnar í út­kalli í Kjósinni

Atli Ísleifsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur óskað eftir skýringum á handtöku sérsveitar ríkislögreglustjóra á eldri manni í Kjós á sunnudaginn og sagt var frá á forsíðu Fréttablaðsins í gær.

Í fréttinni segir að sérsveitin hafi handtekið „fatlaðan mann á áttræðisaldri“ eftir að hann hafi lagfært girðingu á landi sem hann deilir um við nágranna sinn. Átti lögreglan að hafa fengið upplýsingar um ógnandi hegðun mannsins frá umræddum nágranna.

Áslaug Arna greinir frá því á Twitter-síðu sinni að hún hafi óskað eftir skýringum á málinu.

Í fréttinni er meðal annars haft eftir hinum handtekna að lögregla hafi brotist inn í hús dóttur sinnar og tekið rússneskan, óvirkan riffil sem hékk uppi á vegg. Maðurinn hafi verið handtekinn, fluttur á lögreglustöðina við Hlemm þar sem hann var vistaður í sex tíma og sleppt að lokinni skýrslutöku.

Fréttablaðið ræðir sömuleiðis við Karl Magnús Kristjánsson, oddvita Kjósarhrepps, sem segir að fólk hafi orðið vitni af handtökunni þar sem skammbyssu á að hafa verið miðað á hinn handtekna.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segist í samtali við Vísi ekki geta tjáð sig um einstök mál, en að almennt gildi það að lögreglan kalli til sérsveitina þegar vopnum er beitt eða hótað er að beita þeim.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.