Erlent

Aflétta útgöngubanni fyrr en áætlað var

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælendur í Seattle í Washington-ríki í gær. Útgöngubann í borginni hefur verið fellt úr gildi, fyrr en stóð til í fyrstu.
Mótmælendur í Seattle í Washington-ríki í gær. Útgöngubann í borginni hefur verið fellt úr gildi, fyrr en stóð til í fyrstu. Elaine Thompson/AP

Borgaryfirvöld í bandarísku borginni Seattle í Washington-ríki hafa ákveðið að aflétta skyndilega útgöngubanni sem komið hafði verið á vegna mótmælaöldu sem farið hefur yfir stærstu borgir Bandaríkjanna, og snýr að kerfisbundnu ofbeldi lögreglunnar í landinu gegn svörtu fólki. Útgöngubannið átti að vara fram á laugardag.

Jenny Durkan borgarstjóri sagði á Twitter í gærkvöldi að hún hefði tekið ákvörðun um að aflétta banninu. Ákvörðunin hafi verið tekin eftir fund hennar og Carmen Best, lögreglustjóra borgarinnar, við íbúa í samfélaginu.

„Best lögreglustjóri hefur trú á því að við getum fundið jafnvægi almannaöryggis og tryggt að friðsamlega mótmæli fari áfram fram án útgöngubanns. Fyrir þá sem mótmæla friðsamlega í kvöld, þið megið vita að því megið þið halda áfram. Við viljum að þið haldið áfram að láta í ykkur heyra.“

Þúsundir mótmælenda voru áfram á götum borgarinnar eftir klukkan níu í gærkvöldi, en þá hefði útgöngubannið tekið gildi, líkt og síðustu kvöld. Mótmælendur kölluðu eftir því að fjármunum til lögreglunnar yrði varið í önnur samfélagslega verkefni og að lögreglumenn færu úr óeirðagöllum sínum. Margir héldu á skiltum sem á stóð Black Lives Matter ( Svört líf skipta máli).

Ríkisstjóri Washington-ríkis, Cyrus Habib, lýsti því yfir á Twitter að hann væri ánægður með ákvörðunina.

„Fyrirbyggjandi útgöngubann var bara til þess fallið að gera hlutina verri. Aðrar borgir ættu að fylgja þessu fordæmi.“

Kveikjan að mótmælaöldunni í Bandaríkjunum var morðið á George Floyd, svörtum manni sem lést þegar hvítur lögreglumaður hélt hné sínu á hálsi hans í tæpar níu mínútur. Floyd hafði þá verið handtekinn og lá handjárnaður á gangstéttinni. Lögreglumaðurinn hefur verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×