Erlent

Trump slapp við auka­verkanir vegna malaríu-lyfsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trummp fékk tveggja vikna skammt af hydroxychloroquine.
Donald Trummp fékk tveggja vikna skammt af hydroxychloroquine. AP/Evan Vuci

Hvíta húsið hefur gefið út niðurstöður árlegrar heilsufarsskoðunar einkalæknis Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Forsetinn virðist vera við ágæta heilsu en meðal þess sem kemur fram í niðurstöðunum að forsetinn hafi ekki þurft að þola neinar aukaverkanir vegna notkunar á malaríu-lyfinu hydroxychloroquine, sem hann mærði sem töfralausn við kórónuveiruheimsfaraldrinum.

Forsetinn vigtar 110 kíló og segir í skýrslu læknisins að heilsa forsetans hafi lítið breyst að undanförnu. Lýsti Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, heilsu Trump sem ágætri.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að eftir að tveir af starfsmönnum Hvíta hússins greindust með kórónuveiruna hafi Trump tekið tveggja vikna skammt af malaríu-lyfinu hydroxychloroquine sem fyrirbyggjandi aðgerð, ásamt zinki og D-vítamíni. Það hafi verið gert í samráði við lækna auk þess sem að fylgst hafi verið náið með lífsmörkum forsetans á þessum tveimur vikum.

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur varað við notkun lyfsins vegna Covid-19 utan veggja spítala þar sem það geti falið í sér áhættu á hjartatengdum vandamálum. Trump virðist hafa sloppið við aukaverkanir lyfsins, ef marka má skýrsluna.

Lyfið og notkun þess hefur orðið hápólitísk eftir að Trump mærði það sem töfralausn við kórónuveiruheimsfaraldrinum. Ekki hefur verið sýnt fram á virkni lyfsins hydroxychloroquine við Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar virtust benda til þess að Covid-19-sjúklingar sem fengu lyfið væru líklegri til að láta lífið en aðrir. Nokkrar klínískar tilraunir með lyfið voru stöðvaðar í kjölfarið.

Á annað hundrað lækna skrifuðu hins vegar opið bréf til Lancet í síðustu viku þar sem þeir drógu niðurstöðu rannsóknarinnar í efa og óskuðu eftir að ummæli ritrýna um hana yrðu birt opinberlega. Nú segja ritstjórar Lancet að verulegur vísindalegur efi sé um rannsóknina. Þeir hafi fengið óháðan aðila til þess að fara yfir niðurstöðurnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.