Erlent

Mun fleiri létust á Spáni en opinberar tölur benda til

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í Girona í Katalóníu í rúllustiga í verslunarmiðstöð. Daglegt líf á Spáni er smám saman að komast í hefðbundnara horf en landið hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Nýjar tölur hagstofunnar þar benda til þess að enn fleiri hafi látist í faraldrinum en opinberar tölur hafa bent til.
Íbúar í Girona í Katalóníu í rúllustiga í verslunarmiðstöð. Daglegt líf á Spáni er smám saman að komast í hefðbundnara horf en landið hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Nýjar tölur hagstofunnar þar benda til þess að enn fleiri hafi látist í faraldrinum en opinberar tölur hafa bent til. Vísir/EPA

Dánartíðni á Spáni margfaldaðist í samanburði við venjulegt ár þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki í apríl samkvæmt nýjum opinberum gögnum. Þau benda til þess að enn fleiri hafi látið lífið af völdum veirunnar en opinberar tölur segja til um.

Alls létust 225.930 manns á Spáni á fyrstu 21 viku ársins samkvæmt tölum spænsku hagstofunnar. Það var tæplega 44.000 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þegar kórónuveirufaraldurinn, sem hefur dregið 27.127 manns til dauða til þessa samkvæmt opinberum tölum, var í hámarki í byrjun apríl jókst dánartíðnin um 155% frá árinu á undan.

Sérfræðingar telja að viðbótarmannskaðinn skýrist af tilfellum kórónuveiru sem erfitt sé að greina vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma fólks og fólki sem lést þegar það veigraði sér við að leita aðstoðar á sjúkrahúsi vegna annarra sjúkdóma af ótta við að smitast af veirunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Faraldurinn er í mikilli rénun á Spáni. Tölur hagstofunnar virðast staðfesta það þar sem dánartíðni í vikunni 18.-24. maí reyndist sambærileg við sama tímabil í fyrra.


Tengdar fréttir

Spánverjar opna landið fyrir ferðamönnum í júlí

Yfirvöld á Spáni hyggjast opna landið að nýju fyrir erlendum ferðamönnum í júlí, þetta tilkynnti spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.