Erlent

Mun fleiri létust á Spáni en opinberar tölur benda til

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í Girona í Katalóníu í rúllustiga í verslunarmiðstöð. Daglegt líf á Spáni er smám saman að komast í hefðbundnara horf en landið hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Nýjar tölur hagstofunnar þar benda til þess að enn fleiri hafi látist í faraldrinum en opinberar tölur hafa bent til.
Íbúar í Girona í Katalóníu í rúllustiga í verslunarmiðstöð. Daglegt líf á Spáni er smám saman að komast í hefðbundnara horf en landið hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Nýjar tölur hagstofunnar þar benda til þess að enn fleiri hafi látist í faraldrinum en opinberar tölur hafa bent til. Vísir/EPA

Dánartíðni á Spáni margfaldaðist í samanburði við venjulegt ár þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki í apríl samkvæmt nýjum opinberum gögnum. Þau benda til þess að enn fleiri hafi látið lífið af völdum veirunnar en opinberar tölur segja til um.

Alls létust 225.930 manns á Spáni á fyrstu 21 viku ársins samkvæmt tölum spænsku hagstofunnar. Það var tæplega 44.000 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þegar kórónuveirufaraldurinn, sem hefur dregið 27.127 manns til dauða til þessa samkvæmt opinberum tölum, var í hámarki í byrjun apríl jókst dánartíðnin um 155% frá árinu á undan.

Sérfræðingar telja að viðbótarmannskaðinn skýrist af tilfellum kórónuveiru sem erfitt sé að greina vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma fólks og fólki sem lést þegar það veigraði sér við að leita aðstoðar á sjúkrahúsi vegna annarra sjúkdóma af ótta við að smitast af veirunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Faraldurinn er í mikilli rénun á Spáni. Tölur hagstofunnar virðast staðfesta það þar sem dánartíðni í vikunni 18.-24. maí reyndist sambærileg við sama tímabil í fyrra.


Tengdar fréttir

Spánverjar opna landið fyrir ferðamönnum í júlí

Yfirvöld á Spáni hyggjast opna landið að nýju fyrir erlendum ferðamönnum í júlí, þetta tilkynnti spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez í ávarpi sínu sem sjónvarpað var í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×