Fótbolti

Lið Söndru Maríu fyrst inn í undanúrslitin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sandra María og liðsfélagar hennar fagna því að vera komnar í undanúrslit.
Sandra María og liðsfélagar hennar fagna því að vera komnar í undanúrslit. Vísir/Þýska Knattspyrnusambandið

Bayer Leverkusen, lið Söndru Maríu Jessen, varð í gærkvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum þýska bikarsins í fótbolta. Liðið lagði þá Hoffenheim af velli, lokatölur 3-2 Leverkusen í vil eftir framlengdan leik.

Maximiliane Rall kom Hoffenheim yfir undir lok fyrri hálfleiks og leiddu gestirnir í hálfleik. Milena Nikolic jafnaði metin fyrir Leverkusen um miðbik síðari hálfleiks og þar við sat, því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni var það króatíska landsliðskonan Ivena Rudelic sem steig upp fyrir Leverkusen en hún skoraði tvívegis áður en Hoffenheim náði að klóra í bakkann.

Lokatölur 3-2 og Leverkusen þar með fyrsta liðið inn í undanúrslitin en 8-liða úrslitin klárast í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg mæta B-deildarliði Gutersloh og ættu því að eiga greiða leið inn í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×