Erlent

Hundrað til­felli ofbeldis gegn frétta­mönnum í ó­eirðunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur krjúpa fyrir framan lögreglumenn í Los Angeles í gær.
Mótmælendur krjúpa fyrir framan lögreglumenn í Los Angeles í gær. AP Photo/Marcio Jose Sanchez

Hátt í hundrað fréttamenn greindu frá því að lögreglan hafi beint spjótum sínum að þeim í mótmælum helgarinnar í Bandaríkjunum. Lögreglan hafi beitt táragasi, piparspreyi og gúmmíkúlum gegn þeim. Í mörgum tilfellum hafi lögreglan gert þetta þrátt fyrir að fréttamenn hafi gert grein fyrir að þeir væru fréttamenn.

Hópurinn Nefnd til verndar blaðamönnum (e. Committee to Protect Journalists) sagði í yfirlýsingu að slíkar árásir væru „óásættanleg tilraun til að kúga fréttamenn.“ Þess ber að geta að árásir á fréttamenn hafa einnig verið gerðar af mótmælendum.

Mikla athygli vakti þegar fréttamaður CNN var handtekinn í beinni útsendingu á föstudag í Minneapolis, þar sem óeirðirnar hófust, og hafa tugir fréttamanna síðan greint frá ofbeldi af hálfu lögreglu. Góðgerðasamtökin US Press Freedom Tracker tóku saman lista þar sem greint var frá meira en 100 tilfellum þar sem spjótum var beint að fréttamönnum á síðustu þremur dögum. Um 90 þessara tilfella voru ofbeldisfull.

Þá hafa fréttamenn verið duglegir að deila slíkum árásum á samfélagsmiðlum, til að mynda þegar lögregla skaut gúmmíkúlum að tveimur fréttamönnum Reuters á laugardagskvöld í Minneapolis.

Á sunnudagskvöld réðst lögreglumaður að upptökumanni breska ríkisútvarpsins með skildi sínum í Washingtonborg. Yfirmaður Ameríkudeildar BBC sagði að upptökumaðurinn hafi verið merktur í bak og fyrir og greinilegt hafi verið að hann væri meðlimur pressunnar.

Þann sama dag birti útvarpsfréttamaðurinn Adolfo Guzman-Lopez sem var staddur á Long Beach í Kaliforníu mynd af sér með stórt sár á hálsi. Hann sagðist hafa verið skotinn í hálsinn af lögreglumanni með gúmmíkúlu.

Þá var ráðist á fréttateymi áströlsku fréttastofunnar Channel 7 af lögreglunni í Washington í gær. Sendiherra Ástralíu í Bandaríkjunum sagði í yfirlýsingu að ill meðferð fréttamanna væri litin alvarlegum augum og benti hann á að það gerðu allir sem gerðu lýðræði hátt undir höfði.

Fréttamaðurinn Amelia Brace bar að fylgjast með mótmælum fyrir utan Hvíta húsið með upptökumanni sínum Timothy Myers þegar lögreglan hóf að ýta hópi mótmælenda á bak aftur. Brace og Myers reyndu að leita skjóls fyrir aftan vegg en lögreglumenn sáu þau og flýttu sér að ýta þeim báðum til baka og kýldu myndatökumanninn. Þetta fór allt fram í beinni útsendingu.

Bent hefur verið á að samkvæmt Genfarsáttmálanum eru fréttamenn á stríðssvæðum skilgreindir sem óbreyttir borgarar og því eru allar árásir gegn þeim stríðsglæpir. Ekki er þó víst hvort ástandið í Bandaríkjunum eigi endilega við í þessu tilfelli þar sem ekki er um stríða að ræða.

Hér að neðan má sjá hluta Twitterþráðar þar sem tekin hafa verið saman atvik þar sem lögregla hefur beitt valdi gegn fjölmiðlum í uppþotunum í Bandaríkjunum á síðustu dögum.


Tengdar fréttir

Instagram verður svart í dag

Um heim allan dælast inn myndir á Instagram undir kassamerkinu #blackouttuesday er það gert til að standa þétt við bakið á fólki sem verður fyrir kynþáttafordómum um heim allan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×