Erlent

Lögregluþjónar reknir fyrir misbeitingu valds við handtöku tveggja háskólanema

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir lögregluþjónar hafa verið reknir og þrír færðir úr starfi vegna handtöku í Atlanta á laugardagskvöld.
Tveir lögregluþjónar hafa verið reknir og þrír færðir úr starfi vegna handtöku í Atlanta á laugardagskvöld.

Tveir lögregluþjónar í Atlanta í Bandaríkjunum voru reknir í gær eftir að myndband af handtöku þeirra og annarra lögregluþjóna birtist á netinu. Hópur lögregluþjóna handtók tvo háskólanemendur á laugardaginn og voru birt myndbönd af þeim brjóta rúður í bíl þeirra, stinga á dekk bílsins og beita rafbyssum gegn nemendunum, sem báðir eru svartir.

Vinirnir voru í bíl á leið úr miðbæ Atlanta eftir að útgöngubann tók gildi klukkan níu á laugardagskvöldið.

Myndbönd sýna að Messiah Young, sem ók bílnum, tók mynd eða myndband af lögregluþjónum þar sem þeir voru að handtaka einhvern. Á þeim tímapunkti var mikil umferð á götunni.

Þá kölluðu lögregluþjónarnir á hann og spurðu hvort hann vildi enda í fangelsi. Hann skiptis á orðum við nokkra lögregluþjóna og keyrði rólega áfram með umferðinni. Einn lögregluþjónn gekk með honum og hélt áfram að tala við hann.

Sá reyndi svo að draga Young út úr bílnum en hann reyndi að keyra í burtu.

Hópur lögregluþjóna hljóp hann þó uppi, þar sem hann gat ekki keyrt á brott sökum umferðar. Lögregluþjónn opnaði hurðina farþega megin og skaut Taniyu Pilgrim með rafbyssu. Því næst stungu þeir á dekk bílsins og brutu rúðuna bílstjóramegin.

Lögregluþjónarnir brutu að endingu rúðuna bílstjóramegin og skjóta Young einnig með rafbyssu.

Sagði ljóst að þeir þyrftu að fjúka

Keisha Lance Bottoms, borgarstjóri Atlanta, segir ljóst að lögregluþjónarnir hafi farið fram úr sér og beitt of miklu valdi. Hún hefur þar að auki látið fella niður ákærur gegn Young.

„Þegar ég horfði á myndbandið varð strax ljóst að varðandi ungu konuna var valdbeitingin úr hófi. Mér varð einnig ljóst að lögregluþjónninn sem skaut unga manninn þurfti einnig að fjúka,“ hefur CNN eftir Bottoms.

Umfangsmikil mótmæli og óeirðir hafa staðið yfir í borgum Bandaríkjanna undanfarna daga. Óeirðirnar hófust eftir að myndbönd af grimmilegum dauða George Floyd frá því á mánudaginn í síðustu viku, birtust á netinu. Hann var 49 ára gamall maður sem dó í haldi lögreglu í Minneapolis.

Þrír aðrir hafa verið færðir til í starfi.

Myndband úr vestismyndavél annars lögregluþjónsins má sjá hér að neðan. Samskipti þeirra og Young hefjast eftir um tvær og hálfar mínútur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.