Fótbolti

Fær Alexis Sanchez annað tækifæri í Mílanó? | Martinez ekki á leið til Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Svo gæti farið að bæði Martinez og Sanchez verði í herbúðum Inter á næstu leiktíð.
Svo gæti farið að bæði Martinez og Sanchez verði í herbúðum Inter á næstu leiktíð. Claudio Villa/Getty Images

Sóknarmaðurinn Alexis Sanchez virðist eiga framtíð hjá ítalska úrvalsdeildarfélaginu Inter Milan en hann hefur verið á láni þar í vetur frá Manchester United.

Piero Ausilio, yfirmaður knattspyrnumála hjá Inter, sagði að sóknarmaðurinn ætti enn framtíð hjá félaginu þrátt fyrir að hafa átt vægast sagt slæmt tímabil til þessa.

ESPN greinir frá.

Sanchez, sem er á himinháum launum hjá Man Utd, átti ekki upp á pallborðið hjá Ole Gunnar Solskjær, þjálfara liðsins. Var hann því lánaður til Inter síðasta sumar en Romelu Lukaku fór síðan sömu leið sem og Ashley Young. Síðarnefndu leikmennirnir voru seldir en ekki lánaðir.

Eftir slakt tímabil áður en öllu var skellt í lás vegna kórónufaraldursins var talið að Inter myndi senda Sanchez aftur til Manchester-borgar. Ausilio hefur nú gefið Suður-Ameríska framherjanum líflínu.

Sanchez, sem hefur aðeins skorað eitt mark í fimmtán leikjum fyrir Inter, þarf þó að sýna sig og sanna í þeim leikjum sem eru eftir af leiktíðinni. Takist honum að gera það þá er ljóst að Inter væri til í að fá hann aftur á láni á næstu leiktíð.

Þá ræddi Ausilio möguleg félagaskipti argentíska framherjans Lautaro Martinez til Barcelona. Hann taldi þau ólíkleg þar sem Inter þarf ekki að selja sýna bestu leikmenn og Martinez á enn þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×