Enski boltinn

Bosnich um Eið Smára: Hann á skilið alla þá virðingu sem hann fær

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bosnich í leik með Manchester United gegn Valencia.
Bosnich í leik með Manchester United gegn Valencia. EPA/JUAN CARLOS CARDENAS

Mark Bosnich, fyrrum markvörður Aston Villa, Manchester United og Chelsea fer fögrum orðum um Eið Smára Guðjohnsen í viðtali við íslenska hlaðvarpið Steve Dagskrá.

Steve Dagskrá er hlaðvarp í umsjón Vilhjálms Freys Hallssonar og Andra Geirs Gunnarssonar. Vilhjálmur Freyr er gallharður Aston Villa maður og tókst að sannfæra Mark Bosnich um að mæta í létt viðtal við þá félaga.

Í þættinum fóru þeir yfir ferilinn hjá Bosnich en hann lék alls 179 leiki fyrir Aston Villa á árunum 1992 til 1999. Þá lék hann með Chelsea frá árunum 2001 til 2003 þar sem hann var samherji Eiðs Smára.

„Eiður Smári var frábær leikmaður. Eiður á skilið alla þá virðingu sem hann fær því hann var frábær leikmaður. Hann fór til Barcelona og það segir sig í rauninni sjálft að hann var stórkostlegur leikmaður,“ sagði Bosnich.

„Þegar kom að því að klára færin var Eiður stórkostlegur. Hann var einn af þeim á æfingum sem var nær ómögulegt að verja frá,“ sagði Bosnich að lokum um gæðin sem Eiður bjó yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×