Erlent

Mótmælt líka í Kaupmannahöfn og Lundúnum

Andri Eysteinsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Lundúnarbúar flykktust á Trafalgartorg og sýndu samstöðu með mótmælendum í Bandaríkjunum.
Lundúnarbúar flykktust á Trafalgartorg og sýndu samstöðu með mótmælendum í Bandaríkjunum. Getty/Hollie Adams

Mörg hundruð mótmælendur voru handteknir víða í Bandaríkjunum í nótt. Mótmæli vegna dauða George Floyd hafa breiðst hratt út um landið og loguðu eldar víða í nótt. Þá voru skipulögð mótmæli í Kaupmannahöfn og Lundúnum í dag.

Fimmtu nóttina í röð fjölmenntu Bandaríkjamenn út á götur til að mótmæla dauða Floyd sem lést í haldi lögreglunnar í Minneapolis. Mótmælendur kröfðust réttlætis og vilja þeir útrýma kynþáttafordómum meðal lögreglumanna. Mótmælt var í hátt í hundrað borgum víðs vegar um landið þrátt fyrir að útgöngubann væri í gildi í mörgum þeirra.

„Við verðum að takast á við þetta á hverjum degi. Á hverjum degi eru ungir svartir menn fórnarlömb kerfisins,“ segir Tru Williams íbúi í Sacramento sem er einn þeirra sem tók þátt í mótmælunum þar í borg.

Mótmælin fóru víðast hvar rólega af stað en spennan magnaðist hratt og fljótlega tók að sjóða upp úr. Víða var kveikt í byggingum og rúður og bílar eyðilagðir.

„Þetta var erfið nótt í New York, það er enginn vafi. Við sáum hluti sem við viljum aldrei sjá og sem við viljum vera viss um að eigi sér ekki stað í framtíðinni,“ segir Bill de Blasio borgarstjóri í New York.

Íbúar eru ekki allir sáttir við skemmdarverkin sem fylgja mótmælunum. „Við getum mótmælt á friðsamlegan hátt. Allar þessar íkveikjur eru óþarfar,“ segir Aapri Cummings íbúi í New York.

Hiti hefur færst í mótmælin undanfarið en í fyrstu fóru þau friðsamlega fram.Getty/Anadolu

Mótmælendur voru margir með grímur til að verja sig gegn kórónuveirunni. Margir óttast að mótmælin geti haft það í för með sér að veiran taki að breiðast meira út. Tugir lögregluþjóna og mótmælanda slösuðust í nótt en nokkrir hafa látið lífið í átökum síðustu daga.

Þá safnaðist fólk saman í Kaupmannahöfn og Lundúnum í dag og er verið er að undirbúa mótmæli á Austurvelli á miðvikudaginn.

„Við gerum þetta auðvitað vegna þess að líf svartra skiptir máli, við verðum að styðja það. Það er ekki gott að fólki sé mismunað vegna hörundslitar. Við erum jú öll manneskjur,“ segir Soumaya Yusuf íbúi í Kaupmannahöfn sem mætti á Ráðhústorgið þar í borg í dag ásamt fleiri mótmælendum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.