Enski boltinn

Ýmsum verðmætum stolið úr þakíbúð leikmanns Manchester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Riyad Mahrez í leik með Manchester City.
Riyad Mahrez í leik með Manchester City. Vísir/Getty

Riyad Mahrez, alsírski kantmaðurinn í liði Manchester City, var rændur í síðasta mánuði. Lögreglan í Manchester er enn að rannsaka málið. 

Óprúttnir aðilar létu greipar sópa um íbúð leikmannsins og stálu verðmætum að virði 500 þúsund punda, eða um 84 milljónir króna, segir í frétt enska miðilsins The Independent. Þar á meðal var úr að verðmæti 300 þúsund punda sem og yfir 50 þúsund pundum í beinhörðum peningum var einnig stolið.

Hinn 29 ára gamli Mahrez var ekki heima en það virðist sem þakíbúð hans í miðbæ Manchester-borgar ásamt þremur öðrum í byggingunni hafi verið rændar á einu bretti þann 24. apríl síðastliðinn. Komust ræningjarnir yfir rafrænan lykil sem gaf þeim aðgang að íbúðunum. 

Mahrez er ekki eini leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur verið rændur nýverið en menn vopnaðir hnífum réðust inn á heimili Dele Alli, leikmanns Tottenham Hotspur, og ógnuðu honum er þeir rændu því sem þeir gátu. 

Þá var fjölskylda Jan Vertonghen, samherja Dele hjá Tottenham, einnig rænd af vopnuðum mönnum er leikmaðurinn var með Tottenham í Meistaradeildar verkefni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.