Fótbolti

Ranieri bannar tæklingar á æfingum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Claudio Ranieri hefur ákveðið að banna tæklingar á æfingum Sampdoria.
Claudio Ranieri hefur ákveðið að banna tæklingar á æfingum Sampdoria. Vísir/Getty

Claudio Ranieri, þjálfari Sampdoria í ítölsku úrvalsdeildinni, hefur ákveðið að banna leikmönnum liðsins að tækla hvorn annan á æfingum. Þetta gerir hann til að minnka meiðslahættu leikmanna sem eru að snúa aftur til baka eftir tveggja mánaðar hlé vegna kórónufaraldursins.

Stefnt er að því að hefja leik að nýju í ítölsku úrvalsdeildinni í júní en félögin eru nýfarin að æfa aftur. Þó leikmenn hafi verið duglegir að æfa sjálfir á meðan samkomubanninu á Ítalíu stóð þá er alltaf aukin meiðslahætta sem fylgir því að fara að æfa saman á nýjan leik.

Ranieri bendir á að meiðslatíðni leikmanna í Þýskalandi hefur þrefaldast síðan deildin fór aftur af stað og ljóst að leikmenn eru í töluvert verra ásigkomulagi nú en áður en deildirnar voru settar á ís.

Þjálfarinn, sem gerði Leicester City eftirminnilega að Englandsmeisturum árið 2016, hefur því ákveðið að engar tæklingar skuli eiga sér stað fyrr en hann telji leikmenn sína komna í nægilega gott líkamlegt ásigkomulag.

Sampdoria er sem stendur í 16. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 26 stig, aðeins stigi fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×