Innlent

Sóttvarnalæknir enn þeirrar skoðunar að skimun á Keflavíkurflugvelli sé rétta leiðin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafa undanfarnar vikur unnið þétt saman. 
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafa undanfarnar vikur unnið þétt saman.  Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir er enn þeirrar skoðunar að skimun farþega fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní sé enn rétta leiðin þegar kemur að opnun landamæranna. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði í gærkvöldi til Svandísar drögum að minnisblaði um útfærslu skimunar fyrir kórónuveirunni hjá ferðamönnum sem koma til landsins.

Verkefnisstjórn um opnun landamæra landsins skilaði nýverið af sér skýrslu um fyrirhugaða opnun landamæra. Þar kom meðal annars fram að gerlegt er að opna landamærin á öruggan hátt, að ákveðnum forsendum uppfylltum.

Svandís sagði í þættinum Sprengisandi Þórólf leggja það til í drögunum að minnisblaðinu að stjórnvöld haldi sig við það að opna landamærin 15. júní. Hver einasti ferðamaður sem kemur til landsins verður frá og með þeim degi skimaður og árangurinn metinn jafnóðum. 

Ráðherrann sagði minnisblaðið ítarlegt og að eftir eigi að útfæra mörg tæknileg atriði. Enn þá eigi eftir að finna út úr ýmsum sóttvarnarlegum viðfangsefnum enda sé verkefnið gríðarlega stórt og fyrirvarinn stuttur. Svandís sagðist sannfærð um að betra væri að opna landamærin á þessum tímapunkti heldur en bíða.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.