Innlent

Ekkert komið fram sem lætur forsætisráðherra efast um að hægt verði að opna landamærin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Óvíst er hvenær niðurstaða liggur fyrir um hvernig og hvort staðið verði að skimun vegna kórónuveirunnar á Keflavíkurflugvelli. Forsætisráðherra segir unnið að því að útfæra stefnu um skimun á landamærum en sóttvarnalæknir á enn eftir að skila minnisblaði vegna skimunar til ráðherra.

Verkefnisstjórn um skimun á landamærum komst að þeirri niðurstöðu í byrjun vikunnar að gerlegt er að hefja skimun á Keflavíkurflugvelli 15. júní ef uppfylltar eru ákveðnar forsendur.

Ekki hefur enn þá verið tekin ákvörðun um það hvort að af skimuninni verði eða hvernig henni verður háttað. Það er nú í höndum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að taka ákvörðun um næstu skref en sóttvarnarlæknir á enn eftir að skila minnisblaði sínu til ráðherra um hvernig hann telji farsælast að gera hlutina.

„Það er auðvitað svo að enn þá liggur ekki fyrir hagræn greining. Hún mun ekki liggja fyrir fyrr en um mánaðamót. Þannig að það er mikilvægt gagn inn í þessa umræðu alla. En við hins vegar vinnum bara áfram ótrauð að því að útfæra þessa stefnu um skimanir á landamærum,“ segir Katrín.

Hún segir að niðurstaða í málinu komi til með að liggja fyrir á næstunni. „Ég ætla ekkert að lofa neinum tímasetningum um það. Við erum bara að vanda okkur og fara í raun og veru yfir hvert skref. Því augljóslega þurfum við að sjá til enda. Það er að segja þetta snýst ekki bara um skimanir á landamærum heldur hvernig við eigum við það síðan ef fólk greinist jákvætt og svo framvegis. Þannig að það þarf auðvitað sjá þann enda fyrir áður en lagt er af stað.“

Hún á von á að Íslensk erfðagreining komi að skimuninni. „Ég vænti þess að við munum óska eftir samráði og samtali við þau núna í aðdragandanum og við upphaf þessa verkefnis.“

Katrín segist sannfærð um að gerlegt sé að opna landamæri Íslands 15. júní. „Það hefur allavega ekkert fram sem svona lætur mig efast um það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×