Erlent

Partí gæti kostað prinsinn eina og hálfa milljón

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jóakim prins, fyrir miðju, ásamt föður sínum og systur.
Jóakim prins, fyrir miðju, ásamt föður sínum og systur. Patrick van Katwijk/Getty

Belgíski prinsinn Jóakim hefur verið greindur með kórónuveiruna eftir að hafa sótt gleðskap í spænsku borginni Córdoba. Þetta kemur fram í tilkynningu frá belgísku konungshöllinni. Komi í ljós að prinsinn hafi gerst sekur um brot á reglum um samkomur gæti hann þurft að greiða háa sekt.

Hinn 28 ára Jóakim, sem er sonur prinsessunnar Astrid og þar með systursonur Filippusar konungs, ferðaðist til Córdoba til þess að leggja stund á starfsnám. Tveimur dögum eftir komuna þangað, þann 28. maí, fór prinsinn í partí og greindist með kórónuveiruna í kjölfarið.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir spænskum fjölmiðlum að 27 manns hafi verið viðstaddir, en það telst brot á samkomubanni sem nú er í gildi á Spáni. Aðeins 15 eða færri mega koma saman á hverjum stað.

Lögreglan í Córdoba rannsakar nú gleðskapinn. Komi í ljós að samkomubann hafi verið brotið gætu allir gestir átt von á sekt upp á allt að tíu þúsund evrur, en það samsvarar rúmlega einni og hálfri milljón íslenskra króna.

Jóakim prins, sem er tíundi í röðinni að belgísku krúnunni, er nú í sóttkví í Córdoba. Einkenni hans af Covid-19, sem kórónuveiran getur valdið, eru sögð væg.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.