Fótbolti

Augsburg niður um tvö sæti án Alfreðs

Sindri Sverrisson skrifar
Augsburg er í vandræðum eftir tap gegn Herthu Berlín í dag. Leikið var án áhorfenda eins og í öllum leikjum í Þýskalandi þessa dagana.
Augsburg er í vandræðum eftir tap gegn Herthu Berlín í dag. Leikið var án áhorfenda eins og í öllum leikjum í Þýskalandi þessa dagana. VÍSIR/GETTY

Augsburg, lið Alfreðs Finnbogasonar, hefur dregist niður í fallbaráttu þýsku 1. deildarinnar í fótbolta í fjarveru íslenska landsliðsframherjans. Liðið tapaði 2-0 fyrir Herthu Berlín á útivelli í dag.

Augsburg gerði markalaust jafntefli við botnlið Paderborn á miðvikudaginn og tókst ekki heldur að skora í dag. Liðið er með 31 stig í 14. sæti og fór niður um tvö sæti, og er liðið aðeins fjórum stigum fyrir ofan Fortuna Düsseldorf sem er í fallumpsilssæti. Düsseldorf mætir toppliði Bayern München á útivelli nú síðdegis.

Alfreð æfði með Augsburg í vikunni en hefur ekki jafnað sig nægilega vel af hnémeiðslum sem hafa haldið honum frá keppni eftir að hléinu vegna kórónuveirufaraldursins lauk.

Werder Bremen jók vonir sínar um að halda sér uppi í deildinni með góðum 1-0 útisigri á Schalke. Werder Bremen er nú með 25 stig, tveimur stigum á eftir Düsseldorf og þremur stigum á eftir Mainz sem er í næsta örugga sæti, 15. sæti. Mainz tapaði 1-0 á heimavelli gegn Hoffenheim.

Loks vann Frankfurt 2-1 útisigur gegn Wolfsburg með sigurmarki Japanans Daichi Kamada undir lokin. Wolfsburg og Hoffenheim eru nú jöfn að stigum í 6.-7. sæti með 42 stig, í harði baráttu um að komast í Evrópudeildina á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×