Fótbolti

Jóhannes Karl um komu Geirs á Akra­nes: „Grjót­harður rekstrar­maður“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari ÍA eins og undanfarin tímabil.
Jóhannes Karl Guðjónsson er þjálfari ÍA eins og undanfarin tímabil. vísir/s2s

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, er ánægður með að hafa fengið Geir Þorsteinsson inn í fótboltann á Akranesi en Geir tók fyrr á þessu ári við starfi framkvæmdarstjóri hjá ÍA.

Geir hefur komið inn með trompi á Akranesi en hann kom inn á tímum kórónuveirunnar svo eitt af hans fyrstu verkum var að lækka alla leikmenn liðsins í launum. Samkvæmt heimildum Vísis voru leikmenn liðsins ekki sáttir með þá ákvörðun en Jóhannes Karl er ánægður með Geir.

„Það er bara flott að fá Geir inn. Hann er grjótharður rekstrarmaður og hann er á fullu í því að hjálpa okkur í þessum hlutum, að koma okkur aftur á þann stað að við getum verið að reka félagið í ábyrgum rekstri. Það verður hans hlutverk og mitt hlutverk er að liðið fúnkeri vel inni á vellinum,“ sagði Jóhannes Karl.

Allir leikmenn ÍA tóku á sig launalækkun og Jóhannes Karl segist einnig hafa tekið á sig launalækkun þó að hann hafi ekki verið þvingaður í eitt né neitt.

„Það er enginn þvingaður í neitt upp á Skaga. Við erum lítið samfélag. Við erum samstillt samfélag. Við þurfum að gera þetta í sameiningu og ætlum okkur að gera þetta í sameiningu. Það er eina leiðin á erfiðum tímum, ef menn ætla komast almennilega í gegnum það, að þá þarf að vera samstaða og vilji til að vinna hlutina í sameiningu og það ætlum við að gera.“

Klippa: Sportið í dag - Jói Kalli um að fá Geir Þorsteinsson á Akranesi

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×