Fótbolti

Boltinn byrjar að rúlla í ítölsku deildinni tuttugasta júní

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo getur bráðum byrjað að spila fótbolta aftur.
Cristiano Ronaldo getur bráðum byrjað að spila fótbolta aftur. VÍSIR/GETTY

Keppni í ítölsku A-deildinni í fótbolta ætti að hefjast að nýju 20. júní eftir að ítölsk stjórnvöld gáfu samþykki fyrir því í dag.

Áhrifa kórónuveirufaraldursins á íþróttalíf heimsins gætti einna fyrst á Ítalíu þar sem leikjum var frestað eða þeir spilaðir fyrir luktum dyrum þar til að lokum að hlé var gert 10. mars.

Eftir að íþróttamálaráðherrann Vincenzo Spadafora staðfesti í dag að keppni mætti hefjast að nýju 20. júní standa vonir til að hægt verði að klára tímabilið í ágúst. Liðin tuttugu í deildinni eiga ýmist 12 eða 13 leiki eftir og er titilbaráttan afar spennandi en Juventus er með 63 stig og Lazio 62. Sömuleiðis er baráttan hörð um Evrópusæti og að forðast fall, þó að Birkir Bjarnason og félagar í Brescia eigi litla von um að bjarga sér þar sem þeir eru í botnsætinu með 16 stig, níu stigum frá næsta örugga sæti.

Eigandi Brescia sagði reyndar við BBC að það væri „brjáluð ákvörðun“ að hefja keppni að nýju, og að það væri „of mikið fyrir leikmennina“ með tilliti til meiðslahættu. 

Leikmenn gátu hafið einstaklingsæfingar fyrr í þessum mánuði og æfingar í hópum hófust svo í þessari viku.

Samkvæmt Gazzetta dello Sport verður ítalska bikarkeppnin kláruð áður en A-deildin hefst að nýju, með undanúrslitum 13. og 14. júní, og úrslitaleik 17. júní.

Ekki liggur enn fyrir hvort haldið verður áfram keppni í C-deildinni þar sem Padova, lið Emils Hallfreðssonar, leikur. Það gæti skýrst í næstu viku, samkvæmt ítölskum miðlum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.