Innlent

Þurfi að vera skýrt hvað lögregla megi gera við óhlýðna ferðamenn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verkefnastjórnin telur að heimildir lögreglu, meðal annars í tengslum við frávísun, verði að vera alveg á hreinu.
Verkefnastjórnin telur að heimildir lögreglu, meðal annars í tengslum við frávísun, verði að vera alveg á hreinu. Vísir/Vilhelm

Verkefnastjórn um sýnatöku vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands telur að það þurfi að vera alveg skýrt hvaða heimildir lögreglan hafi til þess að bregðast við gagnvart þeim sem koma til landsins en ætla sér ekki að hlíta þeim sóttvarnarráðstöfunum sem í gildi eru á hverjum tíma, þegar umferð um Keflavíkurflugvöll fari að aukast á ný.

Skýrsla verkefnastjórnarinnar var afhent ráðherra í gær og birtist á vef Stjórnarráðsins í dag. Skýrslunnar hefur verið beðið með eftirvæntingu enda er hún liður í því að hægt verði að opna Ísland fyrir ferðamönnum þann 15. júní næstkomandi.

Líkt og komið hefur fram á Vísi í dag er skýrslan viðamikil en þar er meðal annars tæpt á því hvað lögregla geti gert ætli einhver sem komi til landsins sér ekki að fylgja þeim sóttvarnarráðstöfunum sem eru í gildi.

Segir í skýrslunni í kafla um áskoranir og úrlausnarefni lögreglu að eftirfylgni með þeim einstaklingum geti verið erfið í framkvæmd, og þegar hafi komið upp dæmi þar sem lögregla hafi þurft að hafa slík afskipti af fólki.

„Þegar og ef umferð um FLE fer að aukast þarf að vera alveg skýrt hvaða heimildir lögreglan hefur til að bregðast við gagnvart þeim sem ljóst þykir að ætla ekki að hlíta sóttvarnaráðstöfunum eins og sóttkví, þ.m.t. frávísun.“

Þannig sé til skoðunar að flytja frávísunarheimild sem byggi á almannaheilbrigði frá Útlendingastofnun til lögreglunnar en bent er á að liggja þurfi alveg ljóst fyrir hvort heimilt sé að vísa útlendingi frá landi við komu þrátt fyrir að ekki sé unnt að staðfesta smitsjúkdóm.

Það sé þó ekki á starfssviði verkefnastjórnarinnar að gera tillögur í þeim efnum en samkvæmt upplýsingum sem koma fram í skýrslunni hefur ríkislögreglustjóra verið falið að leiða vinnuhóp sem meðal annars eigi að fjalla um þessi álitaefni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×