Íslenski boltinn

Víðir: Fótboltinn gæti farið á fulla ferð í júní

Sindri Sverrisson skrifar
Íslandsmeistarar KR geta vonandi hafið titilvörn sína sem fyrst í júní.
Íslandsmeistarar KR geta vonandi hafið titilvörn sína sem fyrst í júní. VÍSIR/BÁRA

„Keppni í fótbolta fullorðinna sýnist mér að geti byrjað í júní,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sem var gestur í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.

Víðir fór yfir stöðuna með Henry Birgi Gunnarssyni og Kjartani Atla Kjartanssyni í beinni útsendingu og sagði að ef að áætlanir gengu eftir yrði hægt að opna fyrir keppni í Pepsi Max-deildunum í fótbolta um þarnæstu mánaðamót. Æfingar geta hafist, þó með miklum takmörkunum, þegar fyrsta skref í afléttingu samkomubanns verður tekið 4. maí.

„Masterplanið sem við erum að vinna eftir í þessum afléttingum, að gera þetta í hægum skrefum og sjá hvernig málin þróast. Þá erum við að tala um að íþróttastarf barna og unglinga geti byrjað að mjög miklu leyti núna 4. maí. Við erum að klára útfærslur á þessum 4. maí-pakka, hlusta eftir viðbrögðum og fá ábendingar um hvernig hægt sé að vinna málin innan þess ramma sem sóttvarnalæknir er búinn að setja. Þá losnar um þetta æfingabann. Það verða takmarkanir á fjölda sem getur æft saman en að minnsta kosti geta menn farið að æfa í litlum hópum, sem mun örugglega skipta miklu máli. Síðan höfum við sagt að þetta verði tekið í 3-4 vikna skrefum,“ segir Víðir.

„Þegar komið verður í lok maí eða byrjun júní er hugsunin að fara með þetta samkomubann upp í 100 manns, og jafnframt á sama tíma að opna á það að starfsemi sem hefur verið lokuð, eins og líkamsræktarstöðvar, geti opnað og að íþróttastarf fullorðinna geti farið fram án takmarkana. Það þýðir að fótboltinn ætti að geta farið á fulla ferð þá,“ segir Víðir.

Klippa: Sportið í dag - Víðir um íþróttir fullorðinna

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×