Innlent

For­stjóri Vinnu­mála­stofnunar: „Þetta er al­ger­lega ó­þekkt á­stand“

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Sverrisdóttir var starfandi hjá Vinnumálastofnun í hruninu og segir að jafnvel þá hafi ástandið verið allt öðruvísi.
Unnur Sverrisdóttir var starfandi hjá Vinnumálastofnun í hruninu og segir að jafnvel þá hafi ástandið verið allt öðruvísi. Vísir/Sigurjón

Unnur Sverrisdóttir, starfandi forstjóri Vinnumálastofnunar, segir landsmenn standa frammi fyrir óþekktu ástandi vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar. „Við höfum aldrei verið í þessu áður, ekki svona eins og þetta er.“

Unnur segir að enn sem komið er hafi engin tilkynning borist stofnuninni um hópuppsagnir. Hún bendir þó á að enn sé ekki langur tími liðinn af marsmánuði.

Hún segist vona til að aðgerðir yfirvalda sem séu í bígerð og fela í sér að ef atvinnurekendur minnka starfshlutfall starfsfólks í stað þess að segja þeim upp, og starfsfólk fái þá fulla greiðslu á móti launum, muni hafa jákvæð áhrif og milda höggið á atvinnulífið.

„Það er í bígerð að koma slíku á tímabundið, svona björgunarreglur til að fá atvinnurekendur til að hugsa sig um áður en þeir segja upp fólki og þeir geti komist upp með að minnka starfshlutfall. Ég er að vona að þetta muni draga úr þessum áhrifum,“ segir Unnur.

Kórónuveirufaraldurinn mun bíta ferðaþjónustuna hart, líkt og aðra geira innan atvinnulífsins.Vísir/Vilhelm

Yfirgengilega óvænt

Unnur var starfandi hjá Vinnumálastofnun í Hruninu og segir að jafnvel þá hafi ástandið verið allt öðruvísi.

„Núna kemur þetta meira utan frá. Þetta er svo yfirgengilega óvænt. Allar þessar afbókanir og ferðaþjónustan er svo viðkvæm fyrir svona, þessari veiru. Þetta er utanaðkomandi ógn sem er líka að skekja alla Evrópu, Bandaríkin og fleiri staði. Þetta eru aðrar aðstæður og meiri óvissa.“

Hún kveðst þó ætla að trúa því að þetta verði djúp lægð sem sem við munu koma okkur fljótt upp úr aftur. „Ég ætla að trúa því þangað til að annað kemur í ljós.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×