Innlent

Segir nauðsynlegt að úttekt sé gerð á Arnarskóla

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Vísir/Friðrik

„Skólakerfið á Íslandi er í sífelldri þróun og sveitarfélögin og skólafólkið sýnir sífellt þá viðleitni að gera betur. Það hafa á liðnum misserum komið fram sérskólaúrræði á vegum sjálfstætt starfandi aðila sem lög um grunnskóla hafa ekki náð nægilega vel utan um,“ sagði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í Reykjavík síðdegis í gær.

Reykjavíkurborg hefur síðustu daga verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa synjað fötluðum börnum skólavist í Arnarskóla, sem er sérskóli í Kópavogi. Foreldrar fimm ára einhverfrar stúlku með þroskahömlun segja dóttur mismunað hjá Reykjavíkurborg vegna málsins.

„Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin að það sé einhvers konar úttekt gerð á þessu viðkvæmu starfsemi þannig að starfsemin sé örugglega í samræmi við lög og reglur sem og um aðra grunnskóla,“ sagði Helgi.

„Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að þarna er um sérskóla að ræða. Þetta er ekki almennur grunnskóli, þetta er eingöngu sérúrræði fyrir börn sem þurfa á slíkri þjónustu að halda og við viljum að það sé formlega staðfest að þessi börn sem þurfa á þessari sértæku þjónustu að halda að þau fái þá þjónustu sem þeim ber. Arnarskóli er starfræktur í Kópavogi og við höfum því ekkert umboð til að fara til eftirlits eða ytra mats í skólanum.“

Nú þegar eru fjögur börn sem búsett eru í Reykjavík í Arnarskóla og sagði Helgi mikilvægt að þar sé framkvæmd úttekt og að til þess að það væri hægt þyrfti starfsemi að vera í gangi í skólanum. Hann sagði jafnframt að með svoleiðis úttekt vilji þau fá á hreint að lögum og reglugerðum sé framfylgt í skólanum. „Ef við heimilum að nemendur séu í skólanum berum við líka ábyrgð af því að heimila það.“

Hann sagði alls enga ástæðu að halda að ekki sé allt með felldu innan skólans. „Ég vil taka það sérstaklega skýrt fram að við höfum engar efasemdir um það en það skiptir bara miklu máli í opinberum rekstri að við séum að fylgja reglum.“

„Fyrir svona sérdeildir eða sérskóla eiga að vera skýrar inntökureglur og um reglurnar þarf að fjalla tvisvar í viðkomandi sveitarstjórn áður en að reglurnar eru svo samþykktar af menntamálaráðuneytinu. Við vitum ekki og höfum ekki fengið staðfestingu þess efnis að það eigi við í tilviki Arnarskóla,“ sagði Helgi. „Það eru svo ríkar skyldur á sveitarfélögin að þau starfi með réttum hætti og í samræmi við lög og reglugerðir.“

Aðrir sjálfstætt starfandi grunnskólar sem ekki sérhæfa sig í sérúrræðum væru annað mál. Þeir skólar væru betur þekktir og auðveldara væri að rýna í námsskrána og bera saman við aðra grunnskóla en sérúrræðisskóla. „Það eru almennari viðmið þar sem við þekkjum til í skólastarfinu en þarna er það sérhæft úrræði og við viljum fá rýni og staðfestingu á að formsatriðum sé fullnægt og þá með hag barnanna að leiðarljósi.“

„Við erum að reka sjálf, Reykjavíkurborg, einhverfudeildir og Klettaskóla þar sem er verið að vinna með einhverfum börnum og þau gera það afburða vel. En Arnarskóli er með sérstaka nálgun og góð nálgun fyrir mjög marga.“

Hann segir að skóla- og frístundasvið hafi staðfestingu frá foreldrum þeirra barna sem stunda nám við Arnarskóla að aðferðirnar henti mjög vel. Hann segir það þó ekki nóg, betri staðfestingu þurfi að fá. „Við þurfum að fá betri staðfestingu og líka bara í þessu umhverfi því þetta á við um fleiri úrræði og sjálfstætt starfandi aðila að lagaumhverfi okkar og reglugerðir þurfa líka að fanga þessa nýju vídd í okkar starfi.“


Tengdar fréttir

Einhverf og synjað um skólavist

Í Kópavogi er starfræktur skóli fyrir einhverf börn. Þessi skóli heitir Arnarskóli og hefur þá sérstöðu að þar er veitt heildstæð þjónusta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×