Fótbolti

Hender­son líður vel á Melwood en skilur leik­menn annarra liða

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jordan Henderson á æfingu Liverpool á dögunum.
Jordan Henderson á æfingu Liverpool á dögunum. vísir/getty

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, er ánægður með að byrja aftur með félögum sínum eftir rúma tvo mánuði í útgöngubanni og segir að öllum helstu reglum sé fylgt á æfingasvæði félagsins. Henderson segir að honum líði vel því annars myndi hann ekki mæta til æfinga.

Enska úrvalsdeildarliðin fengu grænt ljós frá stjórnvöldum að byrja æfa fyrr í vikunni og Liverpool var eitt þeirra liða sem byrjaði fyrst. Henderson segir að þetta sé gott skref og að á Melwood, æfingasvæði Liverpool, sé öllum helstu sóttvarnarreglum reglum gætt.

„Mér líður vel með allar þær ráðstafanir sem enska úrvalsdeildin og félagið hefur gert. Prufanir, hitamælingar, fjarlægðartakmörk og allt sótthreinsað en þetta hefur allt verið gert mjög vel síðan við mættum aftur. Þau gera allt til þess að gera sem öruggast. Mér líður vel og það er ástæðan fyrir því að við erum að æfa. Mér líður vel á æfingasvæðinu annars væri ég ekki þar,“ sagði Henderson við Sky Sports.

„Hvað varðar næstu skref munum við hlusta á spekinga og lækna. Við munum fylgja öllum réttum skrefum. Við viljum byrja aftur að æfa í stærri hópum og vonandi spila leiki fyrr en síðar, það er að segja þegar það er öruggt.“

Leikmenn eins og N’Golo Kante og Troy Deeney hafa lýst yfir áhyggjum sínum af því að snúa aftur til æfinga og báðir hafa neitað því að æfa. Fyrirliði toppliðsins sýnir því fullan skilning.

„Ég ber virðingu fyrir þeim skoðunum. Menn eru í mismunandi aðstæðum og ef þér líður ekki vel þá ættir þú ekki að vera neyddur eða sett pressa á þig að mæta í vinnuna. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem líður enn ekki vel. Ef það myndi einhver af liðsfélögum mínum líða illa þá myndi ég virða það og styðja hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×