Fótbolti

Hvað eru Messi og félagar eiginlega að drekka?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi er án efa í hópi bestu knattspyrnumanna allra tíma.
Lionel Messi er án efa í hópi bestu knattspyrnumanna allra tíma. Getty/Quality Sport Images

Reglulega sjást Lionel Messi, Luis Suarez, Antoine Griezmann ásamt öðrum Suður-Amerískum knattspyrnumönnum með ákveðinn drykk í hönd en hvað eru þeir að drekka?

Mate te kallast drykkurinn sem sjá má myndinni sem fylgir fréttinni og Griezmann er að drekka á meðan hann spilar hinn geysivinsæla Football Manager. Þá er páfinn einnig aðdáandi, allavega ef eitthvað er að marka frétt vefmiðilsins Goal.

Mate te er hefðbundinn Suður-Amerískur drykkur sem inniheldur mikið koffín og er gerður úr þurrkuðum yerba mate blöðum. Hann er bitur á bragðið og er einkar vinsæll í löndum eins og Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Þó á drykkurinn að bæta skap og svefn ásamt því að bæta meltingu.

Það útskýrir mögulega ást hins franska Griezmann á drykknum en hann hefur áður sagt að Úrúgvæ sé hans annað heimili, þó hann hafi aldrei heimsótt landið. Þá var hann byrjaður að drekka mate te áður en hann gekk í raðir Barcelona.

Það sem vekur helst athygli er hvernig drykkurinn er drukkinn. Hann er í sérstökum bolla, ef bolla skyldi kallam og alltaf drukkinn með járn eða ál röri.

Margir leikmenn virðast njóta þess að drekka drykkinn en Gonzalo Higuain sást til að mynda drekka hann ásamt Douglas Costa og Rodrigo Bentancur í Netflix þáttunum First Team: Juventus.

Þá ku Eric Dier, leikmaður Tottenham Hotspur og enska landsliðsins, hafa kynnst honum í gegnum argentíska samherja sína hjá Tottenham og þaðan komið með hann inn í hóp enska landsliðsins.

Það virðist sem um algeran undradrykk sé að ræða og spurning hvenær hann ryður sér til rúms meðal íþróttafólks hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×