Erlent

Ung­verjar hætta að viður­kenna til­vist trans­fólks með nýjum lögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Vísir/getty

Lög sem banna breytingu á kyni voru samþykkt með miklum meirihluta á ungverska þinginu í gær. Einstaklingar þurfa þannig að halda sig við líffræðilegt kyn líkt og það er skráð í fæðingarvottorði. Með lögunum eru kynleiðréttingar transfólks úr sögunni, sem er gríðarlegt áhyggjuefni að mati réttindahópa.

Fidesz-flokkur Viktors Orbans forsætisráðherra Ungverjalands er með meirihluta á þinginu og frumvarpið flaug þar í gegn, með 134 atkvæðum gegn 56. Ríkisstjórn Orbans segir lögin munu koma í veg fyrir lagalega óvissu. Þá séu þau ekki til þess fallin að takmarka rétt karla og kvenna til að skapa eigin ímynd. Öllum umsóknum síðustu þriggja ára um kynleiðréttingu í Ungverjalandi verður hafnað á grundvelli nýju laganna.

Stjórnarandstaðan hefur sett sig mjög upp á móti frumvarpinu. Bernadett Szél stjórnarandstöðuþingmaður lýsti lögunum sem „illum“ og þá hafa réttindahópar lýst yfir miklum áhyggjum af stöðunni.

Guardian hefur eftir fulltrúa mannréttindasamtakanna Amnesty International að með lögunum séu mannréttindi brotin. Gríðarlegt bakslag hafi nú orðið á réttindum og stöðu trans- og intersexfólks í Ungverjalandi og að lögin séu til þess fallin að ala á hatri í garð þessara hópa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.