Erlent

„Þjóðargersemin“ Kafteinn Moore verður aðlaður

Andri Eysteinsson skrifar
Moore var gerður að heiðurs-ofursta í apríl.
Moore var gerður að heiðurs-ofursta í apríl. Varnarmálaráðuneyti Bretlands

Hinn 100 ára gamli Tom Moore, sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni sem kafteinn í breska hernum og safnaði tæpum sex milljörðum króna til styrktar Heilbrigðisstofnunar Bretlands (NHS) í apríl mánuði, verður aðlaður af Elísabetu II Bretadrottningu og fær því heiðursriddaranafnbót. Sky greinir frá.

Moore ákvað í byrjun apríl mánaðar að halda upp á hundrað ára afmæli sitt með því að ganga hundrað ferðir yfir lóð sína. Í leiðinni ætlaði hann að safna þúsund pundum fyrir NHS. Sú upphæð safnaðist hratt og var stefnan sett næst sett á 500 þúsund pund.

Að lokum hafði Moore safnað um 33 milljónum punda og sagðist hann mjög þakklátur þeim mikla stuðningi sem hann hafði fengið. Moore fagnaði 100 ára afmæli sínu 30. apríl síðastliðinn.

Nú hefur forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, greint frá því að Moore verði heiðraður af Bretadrottningu og sagði Moore vera þjóðargersemi sem hafi verið ljós í kórónuveirumyrkrinu.

Moore sagðist ofurliði borinn þegar hann frétti af heiðrinum. „Aldrei hefði mig grunað að ég skyldi hljóta slíkan heiður. Ég vil þakka hennar hátign drottningunni, forsætisráðherranum og bresku þjóðinni. Ég mun halda þjónustu minni áfram,“ sagði Moore.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×