Fótbolti

Báðust afsökunar á því að hafa notað kynlífsdúkkur í stúkuna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá þessar frægu dúkkur í stúkunni á leik FC Seoul og Gwangju FC í fótboltadeildinni í Suður Kóreu.
Hér má sjá þessar frægu dúkkur í stúkunni á leik FC Seoul og Gwangju FC í fótboltadeildinni í Suður Kóreu. AP/Ryu Young-suk

FC Seoul stillti upp fullt af gínum í stúkunni í fyrsta heimaleik liðsins eftir kórónuveiruhlé og ætlaði sér að reyna fela aðeins tómleikann á vellinum.

FC Seoul mætti þar liði Gwangju FC og fór leikurinn fram á Sangam leikvanginum sem tekur yfir 66 þúsund manns í sæti.

Fljótlega tóku þó skarpir sjónvarpsáhorfendur í Suður Kóreu eftir því að gínurnar voru merktar „BJ Chaero“ sem er þekkt nafn í kynlífsiðnaðinum í landinu og þá einkum fyrir að vera fyrirmyndin af svokölluðum kynlífsdúkkum.

Strax komu upp vangaveltur að þessar gínur hafi í raun verið svokallaðar kynlífsdúkkur hannaðar eftir lögun og vexti umræddar „BJ Chaero“.

Það kom síðan í ljós hvernig gínur þetta voru eftir allt saman þegar forráðamenn FC Seoul ákvaðu að senda frá sér afsökunarbeiðni.

Forystumenn FC Seoul töluðum um að þarna hafi verið á ferðinni hinni frægi misskilningur en þessi misskilningur var við birgðasala gínanna.

FC Seoul kallaði þó gínurnar sínar ekki kynlífsdúkkur heldur vildi félagið meina að þarna hafi verið svonefndar bónusgínur eða „premium mannequins“ á ensku.

„Við viljum biða stuðningsmenn okkar afsökunar. Við erum mjög leið yfir þessu. Það var okkar markmið að reyna að létta stemninguna á þessum erfiðu tímum,“ sagði í afsökunarbeiðni FC Seoul og þar var lofað betrumbætum.

„Við munum hugsa vel og lengi um það hvað við þurfum að gera til að svona gerist ekki aftur hjá okkur.“

Það voru alls þrjátíu dúkkur í stúkunni, 25 voru kvenkyns en fimm karlkyns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×